Great mama

Skondin þessi tilvera....

30 júní, 2005

Aðþrengd eiginkona?

Ekki skreið ég upp í sófann í gær þegar ég kom heim eins og til stóð. Emília Ósk og Guðrún Birna komu í heimsókn til ömmu. Mamma þeirra þurfti aðeins að skreppa í vinnunna aftur. Það fyrsta sem ljósin mín spurðu um var; Amma, megum við fá PEZ. Þær vita að amma á alltaf PEZ í skúffunni. Amma náttúrulega gaf þeim smá PEZ þó það væri ekki nammidagur.

Þetta er sko munurinn á því að vera amma eða mamma. Nú má ég ofdekra börnin og þarf ekki að ala þau upp.

Þær settust síðan í fangið á mér í Lazy-boy stólnum og við horfðum á teiknimynd. Þar sofnuðu þær báðar, svo amman lokaði bara augunum líka og lagði sig með þeim í 20 mínútur. Vaknaði endurnærð.

Nú er fimmtudagur og Aðþrengdar eiginkonur í kvöld í sjónvarpinu. Sá á blogginu hennar Jóhönnu að hún hafði tekið próf til að athuga hverri af þessum eiginkonum hún líktist. Hún kom út sem Lynette.

Ég tók prófið Which desperate housewife are you? á blogginu hennar Hildigunnar dóttur hennar Jóhönnu og ég er BREE! Almáttugur - hélt ekki að ég væri með svona mikla fullkomnunaráráttu.

Fann annað svona próf. http://abc.go.com/primetime/desperate/quiz/index.html. Kom líka út sem Bree þar. Verð víst að sætta mig við þetta.

Svo kemur Hanna Karen til ömmu í kvöld og gistir - mamma hennar og pabbi eru að fara á Duran Duran. Helena Sif ætlar að verða 12 ára aftur og sleppa sér í því að sjá gömlu idolin sín.

More later....

29 júní, 2005

Jeminn....

hvað ég er þreytt ! Fór í ræktina í morgun og nú er ég alveg búin á því. Mig verkjar í fæturna - minnir mig mest á þegar ég var 8 ára og var á fullu í ballett og fékk stanslausa verki í fæturna og var þá látin hætta í mánuð eða meira og hvíla skrokkinn. Þá var maður strax farin að ofbjóða sér.

Ekki að það sé svo núna, heldur er þetta pottþétt gigtin mín sem er að hellast yfir mig eina ferðina enn. Rigning á leiðinni og fullt af lægðum við landið. Hefur aldrei átt vel við mig þegar veðurfarið er þannig.

Eins gott að ég fór ekki í göngu með Léttunum í gærkveldi (er alltaf á leiðinni að mæta í eina slíka) þá hefði ég sjálfsagt ekki komist fram úr rúminu í morgun. Hell.... mar er algjör aumingi að verða.

En það skal ekki slegið við slöku - geri það sem ég má í þessum líkamsræktunarmálum og fer í sund í fyrramálið.

Stefni á að leggja mig um leið og ég kem heim - sófinn kallar !

More later....

28 júní, 2005

Sko þetta gat hún...

Nú er þetta að gera sig, þ.e. fór í ræktina í gærmorgun og púlaði þar á mínu göngubretti og teygði allan skrokkin.

Fór síðan í sund í morgun og synti 200 metra og þá voru axlirnar farnar að kvarta, svo ég bara skellti mér í heita pottinn í smástund. Þetta voru sko ekki 1000 metrar eins og Sigrún Halldórs syndir eins og selur á morgnana. Ef ég hefði reynt það, þá væri einhver að fiska mig upp af botninum núna!

En hver veit, kannski get ég það einhver tíma. ;-)

More later....

27 júní, 2005

Ættmóðirin 72. ára

Ósköp eru þessar helgar fljótar að líða. Laugardagurinn fór í að koma einhverju skikki á bloggið og koma inn linkum. Síðan var þrifið.

Sunnudagurinn fór í að ná í blóm, mold og potta og gróðursetti síðan herlegheitin úti á verönd. Þetta er að verða rosalega sumarlegt og veðrið var fínt á meðan á þessu stóð. En nú rignir bara og á að rigna eins langt og augað eygir. Treysti samt á að það stytti upp um síðir og hægt verði að sitja úti á verönd og njóta sín.

Nú er kominn mánudagur og mamma mín á afmæli í dag. Frábær kona sem sem hefur alið af sér 5 börn, 10 barnabörn og 9 barnabarnabörn og er ekki eldri en þetta. Hún mamma mín er ein sú besta manneskja sem ég hef kynnst í gegnum tíðina. Vill öllum vel og er ljúf og góð. Enda ef hún mamma biður mig um eitthvað þá ýti ég öllu til hliðar og geri það sem hún biður um ef ég mögulega get.

Heill þér mamma og ég vona að við megum njóta návistar þinnar um ókomin ár!

More later....

25 júní, 2005

Göróttu Grýtubakkasysturnar

Frumburðurinn minn hún Helena Sif var að breyta "lookinu" á blogsíðunni sinni. Flott síða. Hún er alltaf svo hugmyndarík og skapandi.
Flottur listamaður og er nú farin að hanna garða. Klár stelpa - hvort heldur sem er til hugar eða handar.

Miðbarnið mitt hún Þorbjörg Lotta hefur aldrei skrifað blogg og segist ekki vita hvað hún ætti að skrifa á svona síðu. Hún er svo rosalega jarðbundin og staðföst. Stendur alltaf allt eins og stafur á bók sem hún segir og gerir. Öguð og nákvæm, en einnig óendanlega hress og stríðin.

Litla barnið mitt hún Inger Anna Lena hefur ekki bloggað síðan á afmælisdaginn minn. Skilst að það standi til bóta fljótlega. Orðið "Nei" virkar ekki á hana. Hún finnur alltaf leið til að gera hið ómögulega. Brjálað að gera hjá hárgreiðslumeistaranum sem vinnur sem deildarstjóri í steypustöð og stjórnar þar fullt af körlum.

Allar eru þær jafn meinhæðnar og mamman. Með óendanlega skemmtilegan húmor (finnst mér allavega).

Tengdasynirnir segja þær göróttar og þær eru enn kenndar við Grýtubakkann þar sem við bjuggum á árum áður.

Ég er rosalega stolt af þessum stelpum - þær eru það besta sem ég hef eignast í lífinu.

More later....

24 júní, 2005

TGI Friday.....

Ósköp leit sófinn vel út þegar ég kom heim úr vinnu í gær. Hann alveg togaði í mig og mig langaði mest til að leggja mig. En nei - þetta gengur ekki, hugsaði konan og dreif sig í að laga til og þrífa geymsluna. Og ekki nóg með það, heldur þreif baðherbergið hátt og lágt.

Að þessu loknu var kominn tími til að setjast niður og horfa á Aðþrengdar eiginkonur - hef bara skolli gaman að þeim þætti. Þegar ég svo loksins sofnaði þá var klukkan orðin 01:15 og ég sem ætlaði að vakna kl. 06:10 og fara í ræktina.

Þegar klukkan hringdi í morgun þá var sko fyrsta hugsunin "Thank God it's Friday" og ég má sofa út í fyrramálið. Snarhætti við að fara í ræktina og ákvað að sofa í klukkutíma til viðbótar.

Og nú er ég reglulega "pissed" út í sjálfa mig - hvaða aumingjaskapur er þetta! Þó mig hafi vantað smásvefn og ég hafi verið þreytt. Gat bara vel komið mér í ræktina.

Motto: Skal ekki vera með svona afsakanir í framtíðinni - ræktin skal stunduð minnst 3svar í viku.

More later....

23 júní, 2005

Gleymdu börnin

Ég er nýbúin að eignast stóra verönd með skjólveggjum - algjöra paradís í góðu veðri eins og í gær. Þegar ég kom heim úr vinnu rétti minn ektakarl mér kaldan öl í glasi og ég dreif mig út í sólina.

Þarna sat ég sleikti sólina og saup á köldu ölinu þegar síminn hringdi og yngsta dóttirin sagði andstutt; Mamma, ég hélt að Níels myndi sækja krakkana á leiksskólann og hann hélt að ég myndi gera það og það er ekki búið að sækja þau enn (klukkan var orðin 5:30). Getur þú náð í þau fyrir mig og hitt mig svo heima. Það tekur mig svo langan tíma að keyra og þú ert fljótari.

Amman náttúrulega rauk í einhverja leppa (leit út eins og flækingur) og rauk út í bíl og brunaði upp í Seljahverfi og náði í blessuð börnin sem voru orðin ansi langeyg eftir foreldrum sínum. En þau kvörtuðu ekki þegar mamma þeirra bauð þeim á McDonalds.

Ég fór síðan heim og þar beið mín grillmatur og meira öl. Á sko fínan karl!

More later....

22 júní, 2005

Ekki eins vönkuð í dag eins og í gær....

Við hér í vinnunni erum ný flutt í annað hús og erum búin að vera þar í nokkrar vikur (höfum áður verið hér til húsa), en í gærmorgun keyrði ég beint á gamla vinnustaðinn, lagði bílnum, rauk út úr honum og inn í lyftu og alla leið upp á fjórðu hæð og var farin að veifa aðgangskortinu þegar ég áttaði mig á því að ég var ekki á réttum stað. Þarna stóð ég eins og hálfviti og leit í kringum mig og hugsaði; Rosalega er ég heppin að enginn sá mig. Svo snaraðist ég í lyftuna og aftur út í bíl og keyrði yfir götuna (já - það er ekki lengra á milli þessara húsa) og kom mér upp á 6. hæð. Svo fór ég að pæla í hvernig ég hefði keyrt í vinnuna - mundi satt að segja ekkert eftir því að hafa keyrt. Vona bara að ég hafi ekki keyrt yfir einhvern á leiðinni !
Þetta gekk mikið betur í morgun - vaknaði klár og hress kl. 06:10 og dreif mig í ræktina og man sko alveg hvernig ég komst í vinnuna og meira að segja mætti í rétt hús.

More later....