Great mama

Skondin þessi tilvera....

29 nóvember, 2005

Skollinn...

Er búin að vera með hausverk í allan dag og mér líður satt að segja eins og einhver hafi valtað yfir mig. Þreytt og með verki út um allt. Vildi helst komast á eitthvert heilsubælið.

En það er ekki boðið upp á það. Nú skal æfa söng í allt kvöld. Löng, löng... æfing og mig langar mest upp í rúm.

Jæja, af stað kona. Bara bryðja meiri verkjatöflur og syngja svo.

More later....

26 nóvember, 2005

Hún amma Gunna hefur breyst í svarta!

Þetta sagði Charlotta Ásta mín við ömmu Ástu þegar ég var hjá Inger í litun og greiðslu áðan. Sú stutta stóð yfir okkur þegar verið var að þvo á mér hárið eftir litunina. Það þurfti að bæta við dökka litinn og setja strípur.

Þegar hárið var rennblautt leit það út eins kolsvart og mín rauk fram og tilkynnti föðurömmu sinni að amma Gunna hefði breyst í svarta!

Alger gullmoli hún Lotta litla.

Nú er bara að gera sig kláran í jólahlaðborð í Perlunni. Namm...

More later....

21 nóvember, 2005

Smáfólkið

Ég er svo rosalega heppin að eiga fullt af litlum ömmubörnum. Heil 6 stykki og 2 stjúpömmubörn.

Þessir englar koma reglulega í heimsókn í Blásalina og þá er sko fjör. Á sunnudaginn voru 4 af barnabörnunum mínum hjá mér á meðan mömmurnar höfðu öðrum hnöppum að hneppa. Viktor Carl 6 ára, Emilía Ósk 5 ára, Guðrún Birna 3 ára og Charlotta Ásta 3 ára.

Það detta stundum algjörir gullmolar upp úr þessum börnum og synd að vera ekki nógu snöggur að skrifa þau niður. Allavega á ég til að gleyma þeim allt of fljótt. Spurning að reyna að koma þeim á bloggið svo rifja megi þau upp síðar.

Ekki alls fyrir löngu þá gistu Emilía Ósk og Guðrún Birna í nokkrar nætur hjá mér (mamma og pabbi voru í Boston) og þá datt upp úr henni nöfnu minni; Amma, viltu kaupa öll fötin á Baby Born sem eru til í búðinni. Amma sagði; Nei, ég get það ekki, ég á ekki nógu mikla peninga til að kaupa öll fötin á Baby Born. Sú stutta var nú ekki lengi að finna ráð við því og sagði: Jú, jú, þú ferð bara í sjoppuna sem er heima hjá mér og þar færðu peninga og þá getur þú keypt föt á Baby Born. If only....

Og á sunnudaginn prumpar Charlotta Ásta og segir um leið; Hvaða lykt er þetta? Amma segir: Nú varstu ekki að prumpa? Mín svarar um hæl; Nei, þetta er sko jarðaberjalykt!

From the mouth of babes... as they say. Alveg óborganlegt þetta smáfólk.

More later....

18 nóvember, 2005

Hvað er klukkan?

Daginn sem ég kom hem úr vinnuferðinni til Þýskalands og Hollands var ég svo uppgefin að ég skreið í rúmið kl. 20:30 og einsetti mér að mæta ekki í vinnuna fyrr en um hádegi. Ég stillti vekjaraklukkuna samt á 06:45 til að vekja Bjarna til að fara í vinnu.

Fyrir skömmu var Viktor Carl ömmustrákur hérna hjá mér og hann taldi allar klukkurnar sem hún amma á. Hann tilkynnti mér að þær væru 43. Það er nefnilega þannig að ég safna klukkum og þó sérstaklega litlum klukkum. Ekki ganga þær nú allar, en samt, það eru þónokkrar sem ganga og tikka hér daginn út og inn. Mér finnst það ósköp notalegt.

Jæja, aftur að sögunni. Vekjaraklukkan hringdi kl. 06:45 og ég ýtti við Bjarna og hann fór á fætur. Mér leið enn eins og ein lestin hefði keyrt yfir mig og ákvað því að stilla klukkuna á 10:00 og gerði það. Sneri mér síðan yfir á hina og hélt áfram að sofa.

Klukkan hringdi síðan klukkan 10:00 og ég ennþá svona rosalega þreytt, svo ég bara ýtti á "snooze" nokkrum sinnum og fór ekki fram úr fyrr en klukkan sagði 11:15. Fyrsta hugsunin hjá mér var; Hvernig getur þú sofið í næstum 15 tíma? Hvað með það - ég dreif mig í sturtu og gerði mig klára til að mæta í vinnuna. Klæddi mig og málaði eins og lög gera ráð fyrir og næ síðan í úrið mitt og lít á það og klukkan á því var 09:45 og ég hugsaði; Hvernig stendur á þessu? Ég sem er nýbúin að kaupa batterí í hana. Ég leitaði að hinu úrinu mínu og sé að sú klukka er einnig 09:fjörtíuogeitthvað. En ekki kveikti konan. Nei, nei - bara breytti úrinu til samræmis við vekjaraklukkuna.

Nú fer ég fram í stofu/eldhús/borðstofu og þar eiga að vera 3 tifandi klukkur. Ein sem er dreginn upp á gamla mátann, en ég sé að hún er stopp. Sem sagt Bjarni gleymdi að draga hana upp á meðan ég var úti. Mér verður litið á hinar tvær klukkurnar og þær eru 09: eitthvað. Og enn kveikti ég ekki.

Jæja, ég fer út í bíl. Fullviss um að það vanti batterí í allar mínar klukkur og viti menn, hvað segir þá klukkan í bílnum? Jú, auðvitað 09:53! Og þá loksins kveikti minn örþreytti kollur á því að ég hefði nú sjálfsagt breytt vekjaraklukkunni og allar hinar væru réttar.

Sem sagt mætti kl. 10:00 í vinnuna og vaknaði samkvæmt öllu kl. 08:00 og snoozaði til 09:20.

Þetta sýnir manni að ekki er gott að hlaupa á eftir lestum og vinna of mikið. Maður verður hreint út sagt kexruglaður af því.

More later....

15 nóvember, 2005

Ertu að verða vitlaus?

Þetta hugsaði ég margoft í vinnuferð minni í Þýskalandi og Hollandi þegar ég fimmtug konan og vel yfir kjörþyngd hljóp á eftir lestum með allan minn farangur til að komast á milli staða.

Ég var send út þann 1. nóvember og átti að vera úti í 11 daga. Ferðin hófst á því að fljúga til Amsterdam og taka svo lestar til Essen í Þýskalandi. Það þurfti hvorki meira né minna en 3 lestar til að komast þangað. Þarna druslaði ég ferðatöskunni með öllu mínu dóti sem vóg ca. 18 kg og var með bakpoka á bakinu með ferðatölvu og ýmsu öðru sem mér fannst vega að minnsta kosti 5 kg.

Jæja, ég var í Essen í 3 nætur - vann þar í 2 daga á sjúkrahúsinu við að reyna að kenna læknum, hjúkrunarfólki og lyfjafræðingum hvernig maður skráir lyfjafyrirmæli í okkar frábæra kerfi Therapy. Síðan var næst farið til Oberhausen á fund, og af honum á annan fund í Gelsenkirchen.

Þegar þessum fundum var lokið þá voru 25 mínútur þangað til lestin sem ég ætlaði að taka í Oberhausen (hálftímaakstur á góðum degi) færi. Einn samstarfsmanna minna í Þýskalandi steig bensínið í botn og við rukum áfram á 200km hraða eftir hraðbrautinni. Lentum í "stau" í 5 mínutur og þegar við komum loksins að lestarstöðinni þá voru 2 mínútur í að lestin færi. Hvað með það við hentumst út úr bílnum og samstarfsmaðurinn bar töskuna (Guði sé lof - púfff...) og ég hljóp á eftir honum út á brautarpall númer 9. Þar stökk ég um borð í lestina í þann mund sem hún lagði af stað -ekki búin að kaupa miða - algjört aukaatriði. Stóð á öndinni eftir hlaupin og þakkaði mínum sæla að hafa ekki fengið hjartaslag á öllum þessum hlaupum.

En Adam var ekki lengi í paradís, ég þurfti að skipta um lest í Arnhem og þegar þangað var komið að þá voru aftur 2 mínútur í að lestin til Tilburg í Hollandi færi og náttúrulega ekki á sama brautarpalli. Ég hljóp með ferðatöskuna og bakpokan upp stiga (engin lyfta) og þar eftir löngum gangi og niður stigann hinum meginn og rétt náði að hoppa um borð í næstu lest í þann mund sem hún lagði af stað.

Skyldi maður nú ætla að blessuðum lestarraunum mínum væri lokið, en nei, ekki aldeilis. Ég að vísu komst heim 2 dögum fyrr en áætlað var og var rosalega ánægð með það, því annars hefði ég aftur orðið að taka nokkrar lestar til Essen í Þýskalandi að nýju. En þar sem ég náði að klára mitt verk þar í fyrri vikunni þurfti að breyta flugmiðanum mínum og þá var eina leiðin að fljúga frá Amsterdam til Kaupmannahafnar og síðan heim. Gott og vel, en til að komast til Amsterdam þurfti ég að taka 2 lestar.

Ég mætti á lestarstöðina í Tilburg kl. 06:15 til að kaupa miða og fara með lestinni sem átti að fara kl. 06:32. En þá var miðasalan ekki opin - opnaði ekki fyrr en kl. 07:00. Og þá voru góð ráð dýr - spurði næsta mann hvað maður gerði í svona tilfellum og kannaði hvort ég gæti keypt miðann um borð í lestinni. Því var ekki að heilsa - þeir voru hættir því þessar elskur í Hollandi - þó skárri með það í Þýskalandi - hægt að kaupa miða þar um borð.

Maðurinn benti mér á sjálfsala - einn sem tók kort og annan sem tók mynt. Ég þóttist nú vera í góðum málum og reif upp eitt af mínum plastkortum og skellti í maskínuna. En hún hafnaði því þar sem þetta var erlent kreditkort! Hellll....... og ég ekki með neitt nema seðla og hinn sjálfsalinn tók ekkert nema mynt.

Það tók mig langan tíma að finna einhvern sem gat skipt fyrir mig seðlunum og ég missti af lestinni. Tók þá næstu um kl. 07:00 og átti síðan eftir að skipta um lest og drusla farangrinum á milli og hann hafði þyngst aðeins. Fór nefnilega í H&M fyrir mömmmu og dæturnar og keypti jólagjafir handa barnabörnunum.

Þegar ég loksins komst á Schiphol flugvöll þurfti ég að leita uppi SAS deskið til að ná í flugmiðann minn og ég var rétt búin að tékka mig inn þegar kallað var út í vél.

Lenti síðan í Köben og hugsaði mér gott til glóðarinnar að setjast niður á Tivoli kránni og fá mér smörrebröð (var ekkert búin að borða) og einn öl, en viti menn hún var lokuð og verður ekki opnuð fyrr en í janúar 2006.

Það var sko ein örþreytt kona sem kom heim úr þessari vinnuferð og næst tek ég ekki mál að ferðast svona með lestum með farangur milli staða. Vil sko fá bílaleigubíl - miklu betra að keyra þetta.

More later....