Great mama

Skondin þessi tilvera....

27 desember, 2005

And Then There Were None


Ja, nú er sko síðasta vígið fallið! Ég er komin í tölvuleikina. Sá umsögn um tölvuleik sem gerður er eftir sögu Agöthu Christie og þá lyftist á mér brúnin. Las sko allar hennar bækur hér á árum áður og á þær flestar.

Sá að þarna væri kominn leikur fyrir mig og keypti hann með það sama. Einhverjir drepnir í skuggalegu húsi á eyju og falla þar einn af öðrum og ég verð að komast að því hver er morðinginn. Jammm.... þetta lýst mér á. Hef löngum verið veik fyrir góðum "krimmum" og les slíka að staðaldri.

Enda er ég svo ósköp ánægð með að sakamálasagan sé orðið viðurkennt listform í rituðu máli hér á Íslandi. Til skamms tíma var nú bara litið niður á slík skrif. En ég skal sko segja ykkur að vel skrifaður "þriller" er sko ekki neitt moð.

Nú er bara að sjá hvort amman verði "húkkt" á tölvuleiknum. Nú ætla ég að fara að leika mér...

More later...

26 desember, 2005

Jólagjöfin mín í ár..


Alveg eru þetta búin að vera frábær jól. Við Bjarni vorum hjá Lottu og Stjána á aðfangadagskvöld og þar var boðið upp á humar á tómatbeði í forrét og kalkúnabringur með mangó chutney og díjon sinnepi í aðallrétt. Og sósan! Hún var algjört lostæti. Emilía Ósk og Guðrún Birna voru yndislegar og eins og alltaf þá eru það blessuð börnin sem gera jólin ógleymanleg.

Ég fékk alveg yndislega gjöf frá dætrum mínum þrem, þeim Helenu, Lottu og Inger. Þær keyptu forláta myndaalbúm á E-bay, svona albúm eins og þau voru í gamla daga sem myndirnar voru límdar á svartan þykkan pappír. Framan á albúminu var mynd af mér þegar ég var ung og falleg (er bara falleg núna ;-) ) og síðan tóku við hinar ýmsu myndir og minningar úr mínu lífi. Þær leituðu uppi myndir hjá ömmu og afa á Kleppó, fengu öll mín myndaalbúm (ekki datt mér samt í hug að þetta stæði til) að láni. Þær rituðu yndisleg orð til mín í albúmið og við hverja mynd. Satt að segja bara táraðist ég og verð að segja að þetta er held ég bara besta jólagjöf sem ég hef nokkru sinni fengið.

En þær voru ekki búnar, heldur gáfu mér líka mynd af sér í ramma í tilefni af því að það eru 10 ár síðan þær létu síðast taka mynd af sér saman sem þær gáfu mér þá. Alveg yndisleg svart/hvít mynd þar sem þær halla sér hver upp að annarri (verð að fá mér skanna, svo ég geti sett inn slíkar myndir hér).

Öll börnin, tengdabörn og barnabörn, 16 talsins, komu til okkar í hangikjöt og heimalagaðan ís í gær. Hér léku börnin og barnabörnin sér í Sudoku spili, Playstation, tölvuleikjum, dúkkuleik með Baby born og horfðu á myndir í sjónvarpinu. Allir fóru sælir og ánægðir heim um síðir og við Bjarni stóðum stolt eftir og höfðum orð á því að ekki væri amalegt að eiga allt þetta fólk.

Nú er Bjarni að vinna og ég sit hér og fæ mér frábært expresso úr nýju AEG expresso vélinni minni og les Valkyrjurnar eftir Þráinn Bertelsson. Ekki amalegar jólagjafir frá mínum ektamanni svo ekki sé minnst á hringinn sem hann gaf mér.

Verð bara að segja að ég er svo ósköp glöð í sinni og þakka mínum sæla fyrir hvað ég á góða að.

More later....

23 desember, 2005

Gleðilieg jól!

Nú bíð ég spennt! 23. desember er runninn upp og ég búin að fara í bæinn með Hrafnhildi vinkonu eins og ég hef gert síðan 1982 eða 1983 (erum ekki alveg vissar vinkonurnar hvenær við byrjuðum á þessari jólahefð).

Við fengum okkur skötu á Lækjarbekku að vanda og Bjarni og Konni, mennirnir okkar fóru saman á flakk niður Laugaveginn og fengu sér eitthvað í svanginn að vanda. Þeir eru vanir því að fara á Shanghai, en komu þar að lokuðum dyrum og voru hreinlega alveg LOST! En þeir enduðu á að fá sé eitthvað í svanginn neðar á Laugaveginum.

Nú er kominn tími á að halla sér og sjá hvað Kertasníkir gefur manni í skóinn í fyrramálið. Sveinkinn sá hefur ekki svikið mig hingað til og ég á ekki von á að hann geri það nú heldur.

Gleðileg jól!

More later....

21 desember, 2005

Jólasveinar ...


Nú skila sveinarnir sér einn af öðrum ofan af fjöllum og í dag kom Gluggagægir og það styttist í að Kertasníkir komi í bæinn. Sveinkinn sá hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér og mínu fólki. Hann hefur nefnilega alltaf gefið öllum heimilismönnum gjafir á aðfangadagsmorgun. Og fyrir bragðið hefur trú okkar á jólasveinana alltaf staðið óbuguð í gegnum árin.

Svo les maður í DV að prestur sé að segja börnum að jólasveininn sé ekki til! Hvað meinar maðurinn með þessu! Þó hann fái ekki í skóinn og sé "óþekkur" þá þýðir það ekki að þessir skemmtilegu uppátækjasömu sveinar séu ekki til. Ósköp á þessi hempuklæddi maður bágt að geta ekki unað börnum á öllum aldri að hafa sína jólsveinatrú. Fuss og svei.... það á enginn að hlusta á svona karla.

Allavega bíð ég spennt eftir komu Kertasníkis og treysti á að hann gefi mér eitthvað í skóinn að vanda, þó ég sé orðin hálfraraldargömul.

Gleðileg jól!

More later....

18 desember, 2005

Jólastress?

Nei, ekki aldeilis. Er bara sallaróleg yfir komu jólanna. Búin að kaupa allar jólagjafir nema fyrir Bjarna. Veit satt að segja ekki hvað ég á að gefa honum. En ég finn eitthvað út úr því áður en klukkurnar slá jólin inn.

Skrapp aðeins í Smáralindina í dag til að koma jólakortum í póst. Djísus... það var hálf þjóðin stödd á staðnum. Prísaði mig sæla þegar ég bar búin að hafa upp á póstútibúinu á efri hæðinni og gat farið heim aftur. Dreif mig í að pakka inn öllum jólagjöfunum og hlustaði á diskinn með jólatónleikum Léttsveitarinnar þetta árið.

Annars eru þetta fyrstu jólin sem ég hef ekki bakað eina einustu smáköku og er bara að hugsa um að sleppa því. Kaupi bara eitthvað að kökum og læt þar við sitja. Meira virði eins og er að slappa af og reyna að losna við endalausa gigtarverki.

Þar sem ég er skráð í Gigtarfélagið fæ ég alltaf blað frá þeim samtökum og fékk eitt slíkt núna fyrir helgina. En það var nú ekki allt, fékk líka blað frá Öryrkjabandalaginu. Hmm.... veit ekki til ég sé á skrá hjá þeim. Ætli það sé verið að segja manni eitthvað...? Veit ég er slæm af minni vefjagigt þessa dagana, en hef nú ekki hingað til litið á mig sem öryrkja.

Jæja nóg um það - hlakka til jólanna.

More later....

12 desember, 2005

Jóla hvað!

Alla malla - maðurinn á hæðinni fyrir ofan mig er ofvirkur. Ég meina það! Hann er búinn að vera að fræsa og bora þarna uppi síðustu daga og varla líft hérna á heimilinu.

Við Bjarni flúðum að heiman eftir vinnu á fimmtudaginn út af þessum hávaða og fórum í nokkrar búðir og svona. Ekki nokkur leið að slappa af heima hjá sér með þennan andsk.... hávaða. Ekki einu sinni hægt að spila jólalög og njóta sín.

Jæja, þá er ég búin að tuða yfir þessu. Trúi nú samt ekki öðru en þessum látum fari að linna.

Svo var nú jólatréssalan hjá Léttunum í gær og auðvitað skilaði ekki einn af mínum kúnnum sér og því þurfti að reyna að elta manninn uppi og gekk illa. Alveg miður mín - stelpurnar voru orðnar langeygar eftir að síðasta tréið mitt yrði sótt. En allt reddast þetta á endanum. Ég greiddi fyrir tréð inn á Léttsveitarreikninginn og var síðan í stöðugu símasambandi við einhvern Ellert hjá Flugbjörgunarsveitinni og við mæltum okkur mót rétt fyrir hádegi í dag, svo ég gæti náð í tréð. Og nú er ég búin að koma því í hendurnar á þeim sem átti að fá það.

Eftir að dætur mínar höfðu valið sér tré í gær fórum við öll á kaffihús með börnin. Ósköp notalegt og amma spurði smáfólkið hvort þau héldu að amma fengi í skóinn ef hún setti hann út í glugga og færi snemma að sofa. Neibb... þau voru sko ekki á því, en Emilía Ósk sagði að það væri bara Kertasníkir sem gæfi fullorðnu fólki í skóinn.

Við höfum nú löngum vitað það í minni fjölskyldu að síðasti sveinkinn væri alveg einstakur. Hann hefur hingað til alltaf fært öllu heimilisfólkinu pakka í skóginn á aðfangadag. Ekki slæmt að eiga slíkan jólasvein að.

More later.....

04 desember, 2005

Jólatónleikar

Nú voru seinni jólatónleikar Léttsveitarinnar í gær í Langholtskirkju og mikið var gaman að geta tekið þátt í þeim. Ég bauð 4 af barnabörnunum mínum á tónleikana, þ.e. Eric Má 9 ára, Viktori Carli 6 ára, Hönnu Karen 6 ára og Emilíu Ósk 5 ára. Lotta, Inger og mamma mættu einnig. Restin af klaninu í vinnu eða upptekinn.

Krakkarnir skemmtu sér vel, en Emilíu minni fannst þetta víst svolítið langt. Hún var alltaf að bíða eftir Bjart er yfir Betlehem, því hún kann það lag, en það var næstsíðasta lagið.

Mömmu og dætrunum þóttu tónleikarnir flottir og mamma sagðist hafa verið mest hissa á hvað Ranheiður Gröndal væri með stóra rödd. Rosaflott söngkona.

Nú fer að koma að æfingum fyrir Dívutónleikana 10. desember. Það verður örugglega rosagaman að taka þátt í þeim líka.

Er löngu komin í jólagírinn og hlakka mikið til að njóta aðventunnar og jólanna.

More later...