Great mama

Skondin þessi tilvera....

29 janúar, 2006

Hanna Karen er 7 ára í dag!

Hún Hanna Karen gisti hjá okkur í afa í nótt ásamt Eric Má bróður sínum. Sú stutta vissi að hún ætti afmæli á morgun og vaknaði víst nokkrum sinnum í nótt og kveikti ljósið og spurði stóra bróður hvort að að sunnudagurinn væri ekki kominn. Hann sagði henni nú bara að halla sér aftur - nóttin væri ekki búin.
Sú var ánægð í morgun þegar hún fékk pakka og síðan fórum við heim til þeirra í hádeginu í mat, súkkulaðiköku og vöfflur. Nammm....
Það er ótrúlegt hvað þessa litla fatlaða stúlka hefur náð framar öllum vonum í öllu því sem hún hefur tekið sér fyrir hendur á sinni stuttu ævi. Einu sinni var talað um að hún myndi aldrei ganga hjálpartækjalaust, en hún hleypur um í dag. Svo voru áhöld um skólagöngu hjá henni, en hún er í 1. bekk í Seljaskóla og gengur vel. Og svo er stór stund á morgun, því þá koma stelpurnar í bekknum hennar í afmæli hjá henni. Hún er svo spennt!

Alveg hef ég óbilandi trú á henni og veit að henni á eftir að vegna vel í lífinu. Hörkudugleg og vill alltaf gera allt sjálf og fær það líka.

Elsku Hanna mín, til hamingju með daginn!

More later....

23 janúar, 2006

Hún Lotta skotta er 30 ára í dag!

Ótrúlegt! Þorbjörg Lotta miðbarnið mitt er komið á fertugsaldur. Til hamingju elsku skottan mín.

Og nú á ég 2 dætur sem orðnar eru 30 ára og sú yngsta nær þessum áfanga á næsta ári.

Ég man sko eins og það hefði gerst í gær þegar Lotta kom í heiminn. Sú stutta sneri sér í heilhring inni í henni móður sinni í fæðingunni og mér var vinsamlegast sagt að bíða með að rembast. Þá fannst mér eins og hún ætlaði nú hreinlega að koma út um hliðina á mér, enda var ég látin liggja á hliðinni og Mosta (amma mín, ljósmóðir og nafna sem tók á móti fleiri en 5.000 íslendingum) hélt fótunum saman á meðan Lotta skotta dansaði heilan hring inni í mér. Hún Mosta mín tók ekki á móti í þetta sinn, heldur fékk að vera viðstödd, enda komin yfir sjötugt. Hún náði þó að taka á móti Helenu Sif elstu dótturinni 2 1/2 ári áður.

Mér var gefið einhver ósköp af hláturgasi (það var sko verkjalyfið sem notað var í þá daga - sko engar mænudeyfingar) og það virkaði svona skolli vel á mig að ég sagði botnlausa brandara og á ensku þar sem ljósmóðirin sem tók á móti var frá Írlandi. Það var svo rosalega gaman þarna á fæðingarstofunni að starfsmönnunum fjölgaði alltaf þarna og hlátrasköllin dundu yfir allt.

Svo var mér sagt að kona sem var að eiga sitt barn í næstu fæðingarstofu spurði hvað gengi eiginlega á þarna og hún var sko ekki til í að trúa því að ég væri að eiga barn og segði ekkert nema brandara í leiðinni. Skolli gott gas....

Lotta skotta var 14 merkur og 52 cm þegar hún kom í heiminn með mikið blásvart hár sem hægt var að greiða og setja spennur og slaufur í. Algjört yndi og er það enn. Með alveg einstaklega skemmtilegan húmor og alla tíð hefur verið sagt um hana þegar mín kemst í stríðnishaminn að það dansi þúsund púkar í augunum á henni.

Ekki skrítið þar sem blessað barnið fæddist við stanslausa brandara klukkan nákvæmlega átta að kvöldi þann 23. janúar 1976.

More later...

13 janúar, 2006

Hmmm... svona tröll er égÍþróttaálfur


Þú ert vanaföst, yfirveguð félagsvera.
Arnold Schwarzenegger er vanaföst, yfirveguð félagsvera. Það er því ekki leiðum að líkjast. Íþróttaálfurinn býr sko ekki í Latabæ (LazyTown TM). Hann tekur til fótanna, án þess að vera að missa af strætó og þótt enginn sé að elta hann. Hann er hrókur alls fagnaðar í heita pottinum og er jafnvígur í flugsundi og að troða marvaða. Rétt eins og Tortímandinn er íþróttaálfurinn marksækinn og staðfastur. Ekkert fær hann stöðvað. „Áfram Latibær, I'll be back!“

Eitthvað skrítið við það.

More later....

12 janúar, 2006

Hann er 7 ára hanna Viktor Carl..


hann er 7 ára í dag! Ósköp líður tíminn hratt, mér finnst svo stutt síðan ömmustrákurinn minn var pínulítill. Og nú er hann hálfnaður í fermingu.

Þarna eru þeir saman báðir ömmustrákarnir mínir, Eric Már 9 ára og Viktor Carl 7 ára.

Til hamingju með daginn elsku karlinn minn og vertu áfram duglegur í skólanum.

Fór áðan í heimsókn og fékk súkkulaðiköku með rjóma hjá afmælisbarninu. En svo á að halda krakkaafmæli á laugardaginn.
Þetta verður mikill afmælismánuður hjá fjölskyldunni, þetta er rétt að byrja.

More later...

11 janúar, 2006

Hann á afmæli hann Bjarni...hann er 48 ára í dag! Þessi mynd var tekin af honum í kirkjugarði í Moskvu 2 dögum eftir að ég varð 50 ára í apríl á síðasta ári. Þarna eru helstu fyrirmenn gömlu Sovétríkjanna (þ.e. þeir sem ekki eru jarðaðir innan Kremlarmúranna) jarðaðir.

Ekki amalegt að eiga yngri mann og svona líka myndarlegan.

Til hamingju elskan mín og nú ætla ég að fara að hafa kaffið og kökurnar (sem bakarinn bakaði - læt sko fagmenn um þetta þegar tíminn er naumur) til fyrir þig og afmælisgestina.

More later....

08 janúar, 2006

Gíraffinn!


Við Bjarni fengum alveg rosalega flottann gíraffa í jólagjöf frá mömmu og pabba. Nú náttúrulega dettur ykkur fyrst í hug að blessuð konan sé alveg búin að tapa sér. Gíraffi hvað?


Þetta er rosalega flott hönnun á stól sem hjálpar litlu fólki til að ná upp í efstu hillu í skápunum, loka gluggum (hef sko lent í vandræðum með það hér í Blásölunum, enda ekki nema 1 metri og 59 og 1/2 centimetri á hæð) og hægt að sitja á honum til að reyma skóna sína, svo ekki sé minnst á hvað börnunum þykir þessi stóll skemmtilegur. Á honum er langt handfang, svona örlítið sveigt sem minnir á hálsinn á gíraffa.

Fyrirbæirið fæst í Kokku á Laugaveginum. Enda óendanlega flottir hlutir til í þeirri búð. Allavega mæli með þessum hlut fyrir fólk sem ekki nær því að vera hið minnsta 1, 70 á hæð.

More later....

04 janúar, 2006

Músin og kjúklingurinn

Hér koma tvær frábærar uppskriftir frá Helenu Sif:

Hvítlaukskartöflumús fyrir ca 18-20 manns

3,5 kg kartöflur (bökunarkartöflur)
5-600 g ca af smjöri
2-300 g rjómaostur
smásletta af rjóma, ca. 50-100 ml
6-8 hvítlauksrif
salt og pipar
1-2 msk þurrt oregano

Hvítlaukur, smjör (við stofuhita) og rjómaostur sett í skál og hræt örlítið saman.
Kartöflur maukaðar út í og hrært saman við.
Hitinn af þeim bræðir ostinn og smjörið.
Oragano út í og hrært og smakkað og kryddað með salti og pipar.

Helena segir að músin sé ekki verri upphituð, svo það er hægt að gera hana fyrirfram og hita svo bara upp.

Austurlenskur kjúklingur a la Helena

Hráefni:
4 skinnlausar kjúklingabringur skornar í þunnar sneiðar
2 litlir eða 1 stór laukur í bitum (ekki saxaður smátt)
1 paprika í bitum
Grænmeti (t.d. 1-2 gulrætur sneiddar langsum eða ostaskerara, blómkál í litlum bitum, brokkólí í litlum bitum , belgbaunir eða bara hvað sem er)
1-2 lúkur af hvítkali skorið í þunnar sneiðar
1-2 lúkur af kínakáli
6-7 vorklaukar skornir í litla bita (allur laukurinn nema rétt neðsti hlutinn).

Krydd og sósur:
Hvítlaukur kraminn eða frosinn í teningum
Smá rauður chili - hálfur ferskur annars ein tsk.
Ketsup Manis eða sæt sojasósa
Ein flaska af Ostrusósu
Svartur pipar
Soja sósa

Aðferð:
Allt skorið niður og tilbúið áður en steikingin hefst. Hrísgrjón soðin fyrst líka. Þá er sett olía og hítlaukur í pott ásamt chili. Hitað upp. Laukur og paprika steikt fyrst í stuttan tíma. Svo er kjúklingur settur út í og steiktur. Þá er kryddað með pipar (vel). út í með harða gærnmetið, s.s. blómkál, brokkolí, hvítkal, gulrætur o.s.frv. Steikt í smá stund og svo er aðeins af Ketsup Manis sett út í (góðan slurk).
Ostrusósa sett út í og hrært. Kínakálið er sett ofan á og lok yfir smástun þannig að það mýkist pínulítið ens oðni ekki í klessu. Þá er vorlaukurinn settur út í og hrært saman við rétt áður en þetta er borið fram.

Þá eru það EKKI gera þetta ráðin:
Ekki setja salt í réttin fyrr en allt er komið út í hann. Tvær ástæður fyrir því, þá svitnar grænmetið og kjötið og soðnar en steikist ekki. Og ostrusósan og sojasósan eru báðar saltar þannig að ekki bæta við salti fyrr en í lokið ef vill.
Ekki setja vorlaukinn út í fyrr en borið er fram annars ofeldast hann. Er bestur eins ferskur og mögulegt er.
Ekki gleyma að setja hvítkálið út í. Það þarf lengri tíma en maður heldur. Alveg sama hversu þunnt það er skorið.

Verði ykkur að góðu!

More later....

01 janúar, 2006

2005/2006


Nú árið er liðið í aldanna skaut. Ósköp er þetta háfleygt - hljómar bara eins og forsetinn í nýársávarpinu.

Við Bjarni mættum í veislu hjá Helenu, Sigga, Eric Má og Hönnu Karenu í gærkveldi ásamt Inger, Níelsi og börnum, þeim Viktori Carli og Charlottu Ástu, Ástu mömmu hans Níelsar, tengdaforeldrum Helenar þeim Hannesi og Sibbu, Munda bróður hans Sigga og syni hans.

Okkur var boðið upp á frábæran nautapottrétt sem var búinn að malla (slow cooking) í 10 tíma. Nammm.... og meiriháttar kartöflumús með fullt af hvítlauk og rjómaosti og ekta smjöri og kryddi. Ætla sko að fá uppskriftina af þessari mús hjá henni dóttur minni. En þetta var ekki allt, heldur var boðið líka upp á grillaðar svínalundir og hamborgarahrygg. Svo kom algjör eðal súkkulaðimús sem hann tengdasonur minn galdrar fram, ásamt ferskum ananas og jarðaberjum með súkkulaðispæni, þeyttur rjómi. Eins og þetta væri nú ekki nóg, þá bar hún Helena mín einnig fram súkkulaðiköku. Þetta var algjört nægtarborð.

Svo ruku karlmennirnir út og skutu upp flugeldum og Hanna Karen fór með og þá varð amma hissa. Hún hefur alla tíð verið svo ósköp hrædd við þetta, en nú er mín að verða 7 ára í lok janúar og fannst þetta nú ekki mikið mál.

Charlotta litla 3 ára var tekin við að sjá um hræðsluna við þetta sprengjudót. Hún sleppti sér létt yfir þessu brjálæðingum sem skjóta villt og galið upp í loftið. Skil hana vel, mér er meinilla við þetta og held mig innadyra þangað til þessu linnir. En samt allt í lagi að horfa út um gluggan og við gerðum það saman. Inger mamma hennar hefur líka alla tíð haft megnustu ýmugust á þessum flugeldum og hún kom með þessa kenningu: Við þrjár, þ.e. ég, hún og Charlotta erum allar svona frekar stjórnsamar konur og ástæðan fyrir því að við óttumst þetta eru ekki flugeldarnir sjálfir, heldur þeir sem þeim skjóta upp. Ástæðan er einföld, við getum ekki stjórnað þessu og því forðumst við þetta eins og heitan eldinn. Held bara að þar hafi mín hitt naglann á höfuðið.

Mínar bestu óskir um gæfuríkt ár til allra minna vina og vandamanna. Og kærar þakkir fyrir árið sem er liðið.

More later....