Great mama

Skondin þessi tilvera....

27 nóvember, 2006

Jólahugleiðing og undarlegur matur

Frumburðurinn minn hún Helena Sif var að skrifa alveg yndislega jólahugleiðingu á blogginu sínu - ég satt að segja hálfklökknaði við lesturinn, enda óður til mín á margan hátt.

Ég var að horfa á 6-7 á Skjá einum um daginn og þar var kokkur að elda steiktan reyktan lax með appelsínukartöflumús og grófkornasinnepssósu. Undarleg samsetning, en liðið sem sat þar og borðaði virtist líka herlegheitin.

Ákvað að prófa þetta í gærkveldi og þetta er ótrúlega gott! Læt uppskriftina fljóta með hérna:

Steiktur reyktur lax með grænmeti:
Reyktur lax - skorinn í fiðrildi (skorið niður að roði og síðan alveg í gegn í næsta skurði og búin til fiðrildi)
Smjör
Sítrónupipar
Möndluflögur
Blaðlaukur
Gulrót - skornar örþunnar ræmur með skrælara
Spínat
Hvítvínssletta

Smjörið á pönnuna og síðan laxafiðrildin. Krydda með sítrónupipar og skella möndluflögunum út á. Þegar búið er að snúa laxinum við, skella þá blaðlauknum og gulrótarræmunum út á pönnuna. Í lokin er spínatinu bætt út í og smáslettu af hvítvíni. Loka pönnunni í 1-2 mínútur - vola - tilbúið.

Appelsínukartöflumús:
Smjör
1 appelsína
Rjómi
Sykur
Salt
Kartöflumúsarduft

Smjörið brætt í potti. Raspa börkinn af appelsínunni út í. Setja síðan safann úr appelsínunni í pottinn. Bæta við rjómanum og síðan smá sykur og salt. Sjóða upp og taka af hitanum og hræra svo kartöfluduftinu út í. Passa að setja ekki of mikið. Þykknar hratt.

Sinnepssósa:
Smjör
Rauðlaukur
Grófkorna sinnep (eða t.d. Dijon sinnep með hunangi - ég notaði það og það er frábært)
Matreiðslurjómi
Smá hvítvínssletta
Salt

Bræða smjörið og setja út í það smátt skorinn rauðlaukinn. Svita hann aðeins - skella svo 2 tsk af sinnepi út í og síðan matreiðslurjómanum og hvítvínið. Sjóða upp og bæta síðan út í salt.

Allt þetta tók ekki nema 7 mínútur á Skjá einum - tók mig um 10 mínútur og ótrúlega góður matur. Hefði aldrei trúað hvað reyktur lax sem er steiktur verður mildur og góður á bragðið.

Verði ykkur að því!

More later....

1 Comments:

At 27/11/06 11:10, Anonymous Nafnlaus said...

Það verður nú nokkuð í það að ég prufi lax og hvað þá með appelsínukartöflumús en sósuna er ég til í.

 

Skrifa ummæli

<< Home