Great mama

Skondin þessi tilvera....

05 júlí, 2006

Les vacances fabuleuses à Paris

Þá erum við hjónin búin að spóka okkur í París. Yndisleg borg til að flakka um og njóta þess að vera til. Við fundum á netinu lítið sætt hótel í Latínuhverfinu skammt frá Notre Dame. Við byrjuðum á að tölta okkur þangað og skoða þessa frábæru kirkju með sína stórfenglegu steindu glugga. Hinum megin við Boulevard St-Michel, en það er gatan sem Hótel Observatoire Luxembourg stendur við, eru Luxemborgargarðurinn. Hann er stórfenglegur og þar sáum við útileikhús við eina höllina sem var að sýna Töfraflautuna eftir Mozart. Hefði sko alveg viljað sjá þá sýningu.

Veðrið lék við okkur alla vikuna, 30°C hiti fyrstu 3 dagana og fór svo í 21-23°C í tvo daga og dró þá aðeins fyrir sólu og svo hlýnaði aftur. Við keyptum okkur vikukort í Metro-lestarnar og flökkuðum vítt og breytt. Skelltum okkur til Versala og skoðuðum þar höllina og garðana. Svo fórum við í Louvre safnið og sáum Monu Lisu (pínulítil mynd) og fullt af öðrum frábærum listaverkum. Gengum síðan í gegnum litla sigurbogann og eftir garðinn endilöngum og út á Champs Elysees og sem leið lá upp á stóra sigurboganum.

Við skoðuðum einnig Pantheon, sem er grafhýsi sem hýsir mörg fyrirmenni eins og t.d. Voltaire, Victor Hugo, Marie og Peter Cuire o.fl. Einnig fórum við í nokkrar kirkjur til viðbótar. Við skoðuðum einnig Museum Natioal D'Historie Naturelle, en þar má sjá uppstoppuð dýr, allt frá minnstu pöddum upp í fíla, ísbirni og hvali. Flott sýning. Og auðvitað var farið upp í Eiffel turninn. Tiltölulega stuttar biðraðir og gekk fljótt fyrir sig að komast á toppinn. Við fórum í kvöldsiglingu niður Signu og borðuðum um borð í bátnum (rándýrt og ekki þess virði - hefðum betur bara farið í siglingu og sleppt matnum).

Á öllu þessu flakki var reglulega sest niður á kaffihús og dreypt á rauðvíni og bjór. Yndislegt með kaffihúsin, allir stólar úti snúa út að götunum, þannig að þú situr við hliðina á þeim sem þú ert með. Á þennan hátt geta allir virt fyrir sér manlífið.

Yndislegar litlar götur í nágrenni Notre Dame með fullt af matsölustöðum og gaman að koma þar að kvöldi til og tölta um og fá sér eitthvað að borða. En eitt verður þó að segja um París, hún er ef eitthvað er dýrari en Reykjavík. Einn bjór kostar til dæmis 800 krónur og rauðvínsglasið það sama. En ef maður fer út fyrir innstu hverfin, þá lækkar þetta niður í 350 krónur. Þeir kunna sko að mjólka ferðmanninn ekki síður en Kastró á Kúbu.

Bon au revoir!

More later....

1 Comments:

At 15/7/06 00:33, Anonymous Nafnlaus said...

Ooooo...lukkunar pamfíll!

 

Skrifa ummæli

<< Home