Great mama

Skondin þessi tilvera....

16 júlí, 2006

Á hraðferð í kringum landið!

Við áttum 2 vikna frí fyrir höndum hér heima eftir að við komum frá París og satt að segja var ekki vænlegur kostur að hanga inni í rigningu og sudda hérna sunnan heiða, svo við skelltum okkur norður í Skagafjörð til Magga bróður og Moniku. Frábært að koma til þeirra í heimsókn og gaman að sjá Sveinsstaði þar sem þau ætla að fara að reisa sér hús. Mættum í Varmahlíðina þegar landsmót hestamanna var og þar var sko sól í heiði. Gistum hjá þeim í 2 nætur og skoðuðum okkur um í nágrenninu. Fórum út á Glaumbæ og skoðuðum safnið í torfbænum þar. Ótrúlegt að fólk skuli hafi búið í svona húsum hér áður fyrr.

Svo ákváðum við að keyra til Akureyrar og fara á Mývatn og svo áfram til Egilsstaða og suðurleiðina heim. Besta veðrinu var spáð þar þegar við lögðum af stað. Á Akureyri var ágætisveður og við héldum áfram ferð okkar til Mývatns og vorum að hugsa um að athuga með gistingu þar. En þegar þangað var komið var frekar leiðinlegt veður og við ákváðum því að keyra áfram til Egilsstaða. Frábært veður þegar þangað var komið, sól og blíða. Og nú var farið í að leita að gistingu. Við byrjuðum á Icelandair hótelinu og konan í afgreiðslunni þar horfði á okkur vorkunnaraugum og sagði: "Nei, því miður á ekkert herbergi og ég held að það sé meira og minna allt uppfullt á svæðinu". Djísus - við búin að keyra fleiri hundruð kílómetra og ekki einu sinni með svefnpoka, hvað þá tjald. Jæja, hún benti okkur á að fara í þjónustumiðstöð hjá Shell stöðinni og þar gætum við fengið upplýsingar um gistingu á öllu austurlandi. Við brunuðum þangað og þar tók önnur kona á móti okkur og horfði á okkur vorkunnaraugum: "Nei, held að það sé allt meira og minna upppantað á svæðinu. Möguleiki að þið getið fengið herbergi á Djúpavogi" Nú fóru nú að renna á okkur tvær grímur. En þá datt upp úr konunni að hún ætti einn lítinn kofa þarna sem væri laus. Við hin ánægðustu þangað til það kom í ljós að þetta var svefnpokapláss og við ekki með svefnpoka. Jæja, við ætluðum nú bara að fara að keyra áfram, þegar einhverra hluta vegna ég bað hana að hringja upp á Hótel Eddu sem er í Menntaskólanum á Egilsstöðum og athuga hvort þar væri herbergi að fá. Hún gerði það (þó hún léti fylgja með að hún teldi ekkert laust hjá þeim). En viti menn, þar var eitt herbergi laust og við komumst í hús.

Drifum okkur þangað og þreytt og ánægð ákváðum við að borða þar um kvöldið. Fengum sæmilegasta mat og gott rauðvín. Þegar reikningurinn var greiddur morguninn eftir hljóðaði hann upp á litlar 24 þúsund krónur. Dýrt drottinst orðið. En við erum búin að komast að því (veit ekki af hverju ég er alltaf svona hissa á þessu) að það er dýrt að vera í fríi - en svo sannarlega þess virði samt.

Meira af hringferðinni seinna.....

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home