Great mama

Skondin þessi tilvera....

06 júlí, 2005

Fölu buffin hennar Gullu

Við gömlu vinkonurnar fjórar hittumst hjá Bryndísi í morgunkaffi á síðasta sunnudag. Þar var margt skrafað og hlegið að vanda.

Gulla er alveg frábær sögumanneskja og henni tekst alltaf að krydda tilveruna þannig að allir velta um af hlátri. Hún rifjaði upp þegar hún ætlaði að fara að grilla "hvítu" buffin hérum árið og þurfti að skipta um kút á gasgrillinu. Ekki tókst betur til heldur en að gasið lak út úr kútnum og það kviknaði í honum. Gulla dó ekki ráðalaus - heldur druslaði logandi grillinu út á gras - sagðist hafa verið alveg viss um að það myndi kvikna í húsinu þar sem það stóð á pallinum upp við húsið.

Önnur hver heimasætan hringdi á slökkviliðið og svo þegar Gulla heyrði sírenuvælið nálgast, þá fór mín allt í einu að pæla í hverju hún væri (ótrúlegt hvað konur hugsa og gera á ögurstundu). Hún hafði verið að laga til í skápunum um morgunin og tekið þar úr umferð einhverja forláta úlpu sem var víst ekkert augnayndi. Mitt í öllum hamagangnum með logandi grillið, gráleitu buffin sem biðu þess að komast á grindina og vælandi sírenur, þá skellti mín sér í þessa líka forljótu úlpu.

Þetta var nú ekki allt - heldur allt í einu kemur lögregluþjónn í fullum skrúða fljúgandi í gegnum trén með slökkvitæki (hann var fyrstur á vettvang) og mætti þar húsmóðurinni í úlpugarminum með hvítu buffin og logandi gaskút undir grillinu.

Gulla sagði að allir nágrannarnir hefðu legið á limgerðinu að fylgjast með ósköpunum og þegar búið var að slökkva eldinn, þá rigndi yfir hana spurningum um hvað hún ætlaði eiginlega að fara að grilla. Ekki nema furða kjötið leit út eins og gráleitar klessur.

Hvað um það, ég fékk uppskriftina hjá Gullu af þessum fölu buffum og grillaði þau áðan og get með sanni sagt. Þetta er æðislega gott!

Hér kemur uppskriftin:
500 gr gott nautahakk
1 pk púrrulaukssúpa
hálf dós af sýrðum rjóma

Sulla þessu öllu saman og búa til buff (passa að hliðarnar séu þéttar og jafnar svo allt detti ekki í sundur á grillinu) og grilla síðan. Passa að grilla í gegn. Þetta er ótrúlega bragðmikið og gott. Ekki krydda með neinu öðru. Berist fram með því sem þú vilt. Bon apetit !

Alveg viss um að þetta gengur jafnvel ofan í börn og fullorðna.

More later....

2 Comments:

At 8/7/05 00:08, Anonymous Nafnlaus said...

Þetta minnir mig bara á þegar ég fór að "bjarga" manninum mínum úr látum í Hveragerði þar sem hann var á eftirlitsferð. Fór á bílnum frá Tengdó um miðja nótt. Hringdi á lögguna því að þarna var fullt af fólki með læti og minn að reyna að stilla liðið. Svo þegar ég sá lögguna koma gerði ég mér allt í einu grein fyrir því að ég væri á náttfötunum á bílnum, svo að mín gaf í og fór heim. Ætlað sko ekki að láta þá sjá mig á náttfötunum.

 
At 8/7/05 08:29, Blogger Great mama said...

Sko - segi það enn og aftur konur eru undarlegar stundum. Körlum væri sko slétt sama þótt þeir væru á náttfötunum.

 

Skrifa ummæli

<< Home