Great mama

Skondin þessi tilvera....

26 desember, 2005

Jólagjöfin mín í ár..


Alveg eru þetta búin að vera frábær jól. Við Bjarni vorum hjá Lottu og Stjána á aðfangadagskvöld og þar var boðið upp á humar á tómatbeði í forrét og kalkúnabringur með mangó chutney og díjon sinnepi í aðallrétt. Og sósan! Hún var algjört lostæti. Emilía Ósk og Guðrún Birna voru yndislegar og eins og alltaf þá eru það blessuð börnin sem gera jólin ógleymanleg.

Ég fékk alveg yndislega gjöf frá dætrum mínum þrem, þeim Helenu, Lottu og Inger. Þær keyptu forláta myndaalbúm á E-bay, svona albúm eins og þau voru í gamla daga sem myndirnar voru límdar á svartan þykkan pappír. Framan á albúminu var mynd af mér þegar ég var ung og falleg (er bara falleg núna ;-) ) og síðan tóku við hinar ýmsu myndir og minningar úr mínu lífi. Þær leituðu uppi myndir hjá ömmu og afa á Kleppó, fengu öll mín myndaalbúm (ekki datt mér samt í hug að þetta stæði til) að láni. Þær rituðu yndisleg orð til mín í albúmið og við hverja mynd. Satt að segja bara táraðist ég og verð að segja að þetta er held ég bara besta jólagjöf sem ég hef nokkru sinni fengið.

En þær voru ekki búnar, heldur gáfu mér líka mynd af sér í ramma í tilefni af því að það eru 10 ár síðan þær létu síðast taka mynd af sér saman sem þær gáfu mér þá. Alveg yndisleg svart/hvít mynd þar sem þær halla sér hver upp að annarri (verð að fá mér skanna, svo ég geti sett inn slíkar myndir hér).

Öll börnin, tengdabörn og barnabörn, 16 talsins, komu til okkar í hangikjöt og heimalagaðan ís í gær. Hér léku börnin og barnabörnin sér í Sudoku spili, Playstation, tölvuleikjum, dúkkuleik með Baby born og horfðu á myndir í sjónvarpinu. Allir fóru sælir og ánægðir heim um síðir og við Bjarni stóðum stolt eftir og höfðum orð á því að ekki væri amalegt að eiga allt þetta fólk.

Nú er Bjarni að vinna og ég sit hér og fæ mér frábært expresso úr nýju AEG expresso vélinni minni og les Valkyrjurnar eftir Þráinn Bertelsson. Ekki amalegar jólagjafir frá mínum ektamanni svo ekki sé minnst á hringinn sem hann gaf mér.

Verð bara að segja að ég er svo ósköp glöð í sinni og þakka mínum sæla fyrir hvað ég á góða að.

More later....

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home