Great mama

Skondin þessi tilvera....

15 nóvember, 2005

Ertu að verða vitlaus?

Þetta hugsaði ég margoft í vinnuferð minni í Þýskalandi og Hollandi þegar ég fimmtug konan og vel yfir kjörþyngd hljóp á eftir lestum með allan minn farangur til að komast á milli staða.

Ég var send út þann 1. nóvember og átti að vera úti í 11 daga. Ferðin hófst á því að fljúga til Amsterdam og taka svo lestar til Essen í Þýskalandi. Það þurfti hvorki meira né minna en 3 lestar til að komast þangað. Þarna druslaði ég ferðatöskunni með öllu mínu dóti sem vóg ca. 18 kg og var með bakpoka á bakinu með ferðatölvu og ýmsu öðru sem mér fannst vega að minnsta kosti 5 kg.

Jæja, ég var í Essen í 3 nætur - vann þar í 2 daga á sjúkrahúsinu við að reyna að kenna læknum, hjúkrunarfólki og lyfjafræðingum hvernig maður skráir lyfjafyrirmæli í okkar frábæra kerfi Therapy. Síðan var næst farið til Oberhausen á fund, og af honum á annan fund í Gelsenkirchen.

Þegar þessum fundum var lokið þá voru 25 mínútur þangað til lestin sem ég ætlaði að taka í Oberhausen (hálftímaakstur á góðum degi) færi. Einn samstarfsmanna minna í Þýskalandi steig bensínið í botn og við rukum áfram á 200km hraða eftir hraðbrautinni. Lentum í "stau" í 5 mínutur og þegar við komum loksins að lestarstöðinni þá voru 2 mínútur í að lestin færi. Hvað með það við hentumst út úr bílnum og samstarfsmaðurinn bar töskuna (Guði sé lof - púfff...) og ég hljóp á eftir honum út á brautarpall númer 9. Þar stökk ég um borð í lestina í þann mund sem hún lagði af stað -ekki búin að kaupa miða - algjört aukaatriði. Stóð á öndinni eftir hlaupin og þakkaði mínum sæla að hafa ekki fengið hjartaslag á öllum þessum hlaupum.

En Adam var ekki lengi í paradís, ég þurfti að skipta um lest í Arnhem og þegar þangað var komið að þá voru aftur 2 mínútur í að lestin til Tilburg í Hollandi færi og náttúrulega ekki á sama brautarpalli. Ég hljóp með ferðatöskuna og bakpokan upp stiga (engin lyfta) og þar eftir löngum gangi og niður stigann hinum meginn og rétt náði að hoppa um borð í næstu lest í þann mund sem hún lagði af stað.

Skyldi maður nú ætla að blessuðum lestarraunum mínum væri lokið, en nei, ekki aldeilis. Ég að vísu komst heim 2 dögum fyrr en áætlað var og var rosalega ánægð með það, því annars hefði ég aftur orðið að taka nokkrar lestar til Essen í Þýskalandi að nýju. En þar sem ég náði að klára mitt verk þar í fyrri vikunni þurfti að breyta flugmiðanum mínum og þá var eina leiðin að fljúga frá Amsterdam til Kaupmannahafnar og síðan heim. Gott og vel, en til að komast til Amsterdam þurfti ég að taka 2 lestar.

Ég mætti á lestarstöðina í Tilburg kl. 06:15 til að kaupa miða og fara með lestinni sem átti að fara kl. 06:32. En þá var miðasalan ekki opin - opnaði ekki fyrr en kl. 07:00. Og þá voru góð ráð dýr - spurði næsta mann hvað maður gerði í svona tilfellum og kannaði hvort ég gæti keypt miðann um borð í lestinni. Því var ekki að heilsa - þeir voru hættir því þessar elskur í Hollandi - þó skárri með það í Þýskalandi - hægt að kaupa miða þar um borð.

Maðurinn benti mér á sjálfsala - einn sem tók kort og annan sem tók mynt. Ég þóttist nú vera í góðum málum og reif upp eitt af mínum plastkortum og skellti í maskínuna. En hún hafnaði því þar sem þetta var erlent kreditkort! Hellll....... og ég ekki með neitt nema seðla og hinn sjálfsalinn tók ekkert nema mynt.

Það tók mig langan tíma að finna einhvern sem gat skipt fyrir mig seðlunum og ég missti af lestinni. Tók þá næstu um kl. 07:00 og átti síðan eftir að skipta um lest og drusla farangrinum á milli og hann hafði þyngst aðeins. Fór nefnilega í H&M fyrir mömmmu og dæturnar og keypti jólagjafir handa barnabörnunum.

Þegar ég loksins komst á Schiphol flugvöll þurfti ég að leita uppi SAS deskið til að ná í flugmiðann minn og ég var rétt búin að tékka mig inn þegar kallað var út í vél.

Lenti síðan í Köben og hugsaði mér gott til glóðarinnar að setjast niður á Tivoli kránni og fá mér smörrebröð (var ekkert búin að borða) og einn öl, en viti menn hún var lokuð og verður ekki opnuð fyrr en í janúar 2006.

Það var sko ein örþreytt kona sem kom heim úr þessari vinnuferð og næst tek ég ekki mál að ferðast svona með lestum með farangur milli staða. Vil sko fá bílaleigubíl - miklu betra að keyra þetta.

More later....

2 Comments:

At 18/11/05 21:26, Anonymous Nafnlaus said...

þokkalegar lestaraunir :o)
Ég styð þig í því að fá að taka leigubíl, eða að ferðirnar verði skipulagðar þannig að maður þurfi ekki að vera á öðru hundraðinu alla leiðina og mæta svo örþreytt(ur) á leiðarenda

 
At 19/11/05 12:21, Blogger Great mama said...

Já - við eigum ekki að taka þetta í mál þegar við erum í vinnuferðum.

Held maður hafi einfaldlega verið of eftirlátsamur hingað til, en nú skal þessu breytt.

 

Skrifa ummæli

<< Home