Great mama

Skondin þessi tilvera....

18 nóvember, 2005

Hvað er klukkan?

Daginn sem ég kom hem úr vinnuferðinni til Þýskalands og Hollands var ég svo uppgefin að ég skreið í rúmið kl. 20:30 og einsetti mér að mæta ekki í vinnuna fyrr en um hádegi. Ég stillti vekjaraklukkuna samt á 06:45 til að vekja Bjarna til að fara í vinnu.

Fyrir skömmu var Viktor Carl ömmustrákur hérna hjá mér og hann taldi allar klukkurnar sem hún amma á. Hann tilkynnti mér að þær væru 43. Það er nefnilega þannig að ég safna klukkum og þó sérstaklega litlum klukkum. Ekki ganga þær nú allar, en samt, það eru þónokkrar sem ganga og tikka hér daginn út og inn. Mér finnst það ósköp notalegt.

Jæja, aftur að sögunni. Vekjaraklukkan hringdi kl. 06:45 og ég ýtti við Bjarna og hann fór á fætur. Mér leið enn eins og ein lestin hefði keyrt yfir mig og ákvað því að stilla klukkuna á 10:00 og gerði það. Sneri mér síðan yfir á hina og hélt áfram að sofa.

Klukkan hringdi síðan klukkan 10:00 og ég ennþá svona rosalega þreytt, svo ég bara ýtti á "snooze" nokkrum sinnum og fór ekki fram úr fyrr en klukkan sagði 11:15. Fyrsta hugsunin hjá mér var; Hvernig getur þú sofið í næstum 15 tíma? Hvað með það - ég dreif mig í sturtu og gerði mig klára til að mæta í vinnuna. Klæddi mig og málaði eins og lög gera ráð fyrir og næ síðan í úrið mitt og lít á það og klukkan á því var 09:45 og ég hugsaði; Hvernig stendur á þessu? Ég sem er nýbúin að kaupa batterí í hana. Ég leitaði að hinu úrinu mínu og sé að sú klukka er einnig 09:fjörtíuogeitthvað. En ekki kveikti konan. Nei, nei - bara breytti úrinu til samræmis við vekjaraklukkuna.

Nú fer ég fram í stofu/eldhús/borðstofu og þar eiga að vera 3 tifandi klukkur. Ein sem er dreginn upp á gamla mátann, en ég sé að hún er stopp. Sem sagt Bjarni gleymdi að draga hana upp á meðan ég var úti. Mér verður litið á hinar tvær klukkurnar og þær eru 09: eitthvað. Og enn kveikti ég ekki.

Jæja, ég fer út í bíl. Fullviss um að það vanti batterí í allar mínar klukkur og viti menn, hvað segir þá klukkan í bílnum? Jú, auðvitað 09:53! Og þá loksins kveikti minn örþreytti kollur á því að ég hefði nú sjálfsagt breytt vekjaraklukkunni og allar hinar væru réttar.

Sem sagt mætti kl. 10:00 í vinnuna og vaknaði samkvæmt öllu kl. 08:00 og snoozaði til 09:20.

Þetta sýnir manni að ekki er gott að hlaupa á eftir lestum og vinna of mikið. Maður verður hreint út sagt kexruglaður af því.

More later....

3 Comments:

At 18/11/05 21:33, Anonymous Nafnlaus said...

Snilldin ein :o)

 
At 21/11/05 19:01, Anonymous Nafnlaus said...

Ég er bara að velta því fyrir mér hvenær þú sendir Bjarna í vinnuna var það um miðja nótt?

 
At 21/11/05 19:51, Blogger Great mama said...

Guð - það var einmitt það sem ég hafði mestar áhyggjur af þegar ég mætti í vinnu. Hringdi í mann karl í snarhasti og spurði hann hvenær ég hefði vakið hann. Hann sagði með forundran, nú rétt fyrir sjö! Mikið var ég fegin - sem sagt ég hafði ekki stillt klukkuna svona kolvitlaust fyrr en eftir ég vakti hann og ætlaði að stilla hana á að hringja kl. 10:00. Hef eitthvað átt aukalega við hana í leiðinni - enda alveg dauðuppgefin og gleraugnalaus upp í rúmi að bagsla við þetta. ;-)

 

Skrifa ummæli

<< Home