Great mama

Skondin þessi tilvera....

01 janúar, 2006

2005/2006


Nú árið er liðið í aldanna skaut. Ósköp er þetta háfleygt - hljómar bara eins og forsetinn í nýársávarpinu.

Við Bjarni mættum í veislu hjá Helenu, Sigga, Eric Má og Hönnu Karenu í gærkveldi ásamt Inger, Níelsi og börnum, þeim Viktori Carli og Charlottu Ástu, Ástu mömmu hans Níelsar, tengdaforeldrum Helenar þeim Hannesi og Sibbu, Munda bróður hans Sigga og syni hans.

Okkur var boðið upp á frábæran nautapottrétt sem var búinn að malla (slow cooking) í 10 tíma. Nammm.... og meiriháttar kartöflumús með fullt af hvítlauk og rjómaosti og ekta smjöri og kryddi. Ætla sko að fá uppskriftina af þessari mús hjá henni dóttur minni. En þetta var ekki allt, heldur var boðið líka upp á grillaðar svínalundir og hamborgarahrygg. Svo kom algjör eðal súkkulaðimús sem hann tengdasonur minn galdrar fram, ásamt ferskum ananas og jarðaberjum með súkkulaðispæni, þeyttur rjómi. Eins og þetta væri nú ekki nóg, þá bar hún Helena mín einnig fram súkkulaðiköku. Þetta var algjört nægtarborð.

Svo ruku karlmennirnir út og skutu upp flugeldum og Hanna Karen fór með og þá varð amma hissa. Hún hefur alla tíð verið svo ósköp hrædd við þetta, en nú er mín að verða 7 ára í lok janúar og fannst þetta nú ekki mikið mál.

Charlotta litla 3 ára var tekin við að sjá um hræðsluna við þetta sprengjudót. Hún sleppti sér létt yfir þessu brjálæðingum sem skjóta villt og galið upp í loftið. Skil hana vel, mér er meinilla við þetta og held mig innadyra þangað til þessu linnir. En samt allt í lagi að horfa út um gluggan og við gerðum það saman. Inger mamma hennar hefur líka alla tíð haft megnustu ýmugust á þessum flugeldum og hún kom með þessa kenningu: Við þrjár, þ.e. ég, hún og Charlotta erum allar svona frekar stjórnsamar konur og ástæðan fyrir því að við óttumst þetta eru ekki flugeldarnir sjálfir, heldur þeir sem þeim skjóta upp. Ástæðan er einföld, við getum ekki stjórnað þessu og því forðumst við þetta eins og heitan eldinn. Held bara að þar hafi mín hitt naglann á höfuðið.

Mínar bestu óskir um gæfuríkt ár til allra minna vina og vandamanna. Og kærar þakkir fyrir árið sem er liðið.

More later....

2 Comments:

At 4/1/06 01:04, Blogger Giovanna said...

Gleðilegt ár... Get ég líka fengið uppskriftina?

 
At 4/1/06 14:13, Anonymous Nafnlaus said...

Takk fyrir kvöldið og verði ykkur að góðu. Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir allt liðið.

 

Skrifa ummæli

<< Home