Great mama

Skondin þessi tilvera....

19 maí, 2006

Ofnæmi og söngur!

Þetta tvennt fer bara engan veginn saman. Það er að vera með nefið gjörsamlega stíflað út af ofnæmi og röddin rám. Dúndrandi höfuðverkur og maður reynir að anda í gegnum munninn og ofþornar. Púff.... þetta gengur ekki.

Byrjaði nú daginn á því að fara í vinnuna og bagsla þar við að reyna að anda eins og normal manneskja. Gaf sig engan veginn. Gafst upp á endanum og fór svo til ofnæmislæknis eftir hádegið og fékk ný lyf. Mér var bara pent sagt að ég væri svo ósköp viðkvæm fyrir áreiti (hef nú alltaf vitað að innst inni væri ég nú bara viðkvæmt blóm.... hummm, humm....). Halda mig frá hundum, köttum og hestum. Ekki vera með uppstoppuð dýr heima (ekkert svoleiðis í kringum mig)og ekki leyfa reykingar nálægt mér (spurning hvað ég geri við Bjarna?). Hann spurði hvort ég hefði nokkuð farið til sólarlanda nýlega og ég náttúrulega jánkaði því og sagði að ég hefði verið á Kúbu. Ég sagði honum að ég hefði nú bara verið betri þar, heldur en hér heima. Stemmir... sagði doktorinn. Svona bólgur í slímhúð og stíflur verða mikið betri í hita og raka.

Ja, það er vandlifað í henni veröld. Og Ísland er sko ekki fyrir einhverja aumingja sem ekki þola að veðurfarið sé alltaf eins og rússíbani.

Hringdi í Jóhönnu kórstjóra og afboðaði mig í kvöld (sniff..sniff). Þýðir víst lítið að ætla að syngja ef maður nær ekki andanum og röddin er rám.

Jóhanna sagðist þekkja þetta af eigin raun, þ.e. að fá ofnæmi og verða rám og stífluð. Sagði mér svo að drífa mig í að blogga!

Og þar sem ég læt svo skolli vel að stjórn, þá bara settist ég niður við tölvuna og skellti þessu inn.

Hugur minn verður hjá Léttunum í Langholtskirkju í kvöld og í afmælinu hjá Margréti eftir tónleika og á slúttinu á Café Óperu eftir það.

Tu tu tu.... stelpur! Kýlið á það.

More later...

01 maí, 2006

Habana Libre, Daiquiri og sjö ára romm!

Vá - alveg var þetta frábær ferð til Kúbu. Sjóðandi heitur staður og fjölbreytt mannlíf. Og tónlistin! Þessi bræðingur af jazz, afrískri tónlist og eldheitri spanskri músik er bara flottur. Gistum á fyrrverandi Hilton hóteli, sem nú heitir Habana Libre. Risastór herbergi með tveimur 180cm breiðum rúmum. Við Bjarni lögðumst upp í sitthvort fyrsta kvöldið og litum á hvort annað og sögðum.....: Nei.. ekki alveg að gera sig. Svo skolli langt á milli okkar. Hefðum sko alveg komið eins og 3 manneskjum í viðbót fyrir í þessum rúmum. Svo hann bara skreið yfir til mín.

Við byrjuðum fyrsta daginn á því að fara niður í gömlu Havana með fríðu föruneyti, þeim Hjördísi, Soffíu, Önnu Grétu, Maríu Jóns, Sjöfn og Guðmundi. Svo Bjarni og Guðmundur voru tveir með okkur 8 kellum og leiddist það nú ekki. Við stoppuðum á ýmsum stöðum og fengum okkur eitthvað svalandi að drekka, enda 35°C hiti. Byrjuðum á Mojito á dómkirkjutorginu (miklu betri þar en á hótelinu ... smökkuðum hann þar þegar við komum) - svo var tölt af stað og gerð nokkur drykkjarstopp á leiðinni. Það þurfti sko ekkert pissustopp - maður bara pissaði kvölds og morgna - sama hvað maður drakk. Hitinn var slíkur.

Svo lá leiðin á Floritdita barinn þar sem Hemmingway hélt til og drakk sína daiquiri kokkteila. Við náttúrulega skelltum okkur á einn slíkann... og svo annan....og svo annan. Alveg skolli góður og ferskur drykkur. Þarna voru náttúrulega músíkkantar og á hverju horni og á hverjum bar og kaffihúsi. Þeir spiluðu nokkur lög sem við kunnum og eftir því sem kokkteilunum fjölgaði þá urðum við söngglaðari. Svo kom blessaður söngvarinn og vildi náttúrulega fá sína "cuca" fyrir (gjaldmiðill fyrir útlendinga á Kúbu kallast CUC) og sagði pent við okkur að ef við kæmum daglega og syngdum þá yrðu þeir atvinnulausir. Well.....

Ótrúlega dýrt að vera á Kúbu, enda Kastró svo séður að hann er með tvöfalt hagkerfi. Eitt fyrir innfædda og annað fyrir okkur túrhestana. Held bara að þetta sé dýrasti staður sem ég hef verið á. Ekki stóð maður í búðum og keypti eitthvað. En, samt þá var þetta þess virði.

Rosalega gaman að taka þátt í kóramótinu og undarleg tilfinning að syngja á sviði þar sem auðveldlega hefði verið hægt að koma fyrir öðrum 100 konum. Vanalega er okkur komið fyrir með einstakri lagni, þar sem flest hús eru of lítil fyrir okkur.

Sjö ára romm á Kúbu, er algjör eðaldrykkur. Smakkast eins og besta koníak og allt annað en það romm sem hér fæst. Hef komist að því að romm er ekki sama og romm, frekar en vodka það sama og vodka. En ég komst að því í Moskvu í fyrra, að það sama á við það.

Svona í lokin læt ég hér fylgja uppskrift af Daiquiri kokteilnum. Leitaði þetta upp á netinu í gær og bjó til slíkan handa okkur hjónunum. Fylltist af nostalgíu þegar ég smakkaði drykkinn.

Daiquiri:
2 shots White Rum
0,5 shot Lime Juice
0,25 shot Sugar Syrup

Skella öllu í blandarann með vel af klaka og þeyta - hella síðan í martiniglös.

Skál!

More later....