Great mama

Skondin þessi tilvera....

21 júlí, 2006

Brennuvargurinn minn

Í París gistum við hjónin á litlu skemmtilegu hóteli á Boulevard Saint-Michel. Gömul bygging eins og þær eru flestar á þessum stað í borginni. Hvað um það við fengum herbergi á 3 hæð sem sneri út að götunni. Það voru 2 tvöfaldir gluggar á herberginu og hægt að opna þá upp á gátt og þegar það var gert, þá blöstu við tveir blómapottar með fullt af fallegum sumarblómum.

Minn karl, sem er einn af þeim er með nikótínfíkn á háu stigi, var orðinn mjög þurfi að fá skammtinn sinn. Enda búinn að fljúga í rúma 4 tíma og svo var hálftíma leigubílaakstur að hótelinu. Það mátti reykja á herberginu (skil ekki hvað ég er nice - þoli ekki reyk) en hann opnaði gluggann og kveikti sér í og saug að áfergju og passaði að reykurinn færi nú ekki inn herbergið - þekkir sína konu. Hvað um það þegar hann var búinn, þá drap hann í eiturnaglanum í moldinni í blómapottinum.

Við skelltum okkur síðan í göngutúr um nágrennið og komum aftur til baka upp á hótel eftir ca. 2 klukkustundir. Þegar við komum inn í herbergið, þá finnum við þessa skrítnu lykt. Minnti helst á lyktina þear verið var að reykja pulsurnar hjá SS þegar ég vann á skrifstofunni þar upp úr 1980. Við kypptum okkur nú ekkert upp við það og gerðum okkur klár í að fara út aftur.

Nema að minn karl opnar gluggann til að líta út og áður en ég veit af heyrist skaðræðisöskur; Það er að kvikna í blómunum! Komdu með vatn!
Nema hvað , ég stekk til og redda vatninu og hann skellir sér í slökkviliðsstörfin.

Það sem sé kraumaði glóðin í moldinni í blómapottinum og pylsulyktin kom af því. Moldin var skraufaþurr, enda 30 stiga hiti og sól, og í henni var fullt af trjákurli.

Mátti ekki miklu muna að við kveiktum í þessu gamla húsi og sjálfsagt allri húsröðinni, þar sem þau er sambyggð svo langt sem augað eygði.

Þið getið rétt ímyndað ykkur ræðuna sem ég hélt yfir mínum manni.

More later...

16 júlí, 2006

Á hraðferð í kringum landið!

Við áttum 2 vikna frí fyrir höndum hér heima eftir að við komum frá París og satt að segja var ekki vænlegur kostur að hanga inni í rigningu og sudda hérna sunnan heiða, svo við skelltum okkur norður í Skagafjörð til Magga bróður og Moniku. Frábært að koma til þeirra í heimsókn og gaman að sjá Sveinsstaði þar sem þau ætla að fara að reisa sér hús. Mættum í Varmahlíðina þegar landsmót hestamanna var og þar var sko sól í heiði. Gistum hjá þeim í 2 nætur og skoðuðum okkur um í nágrenninu. Fórum út á Glaumbæ og skoðuðum safnið í torfbænum þar. Ótrúlegt að fólk skuli hafi búið í svona húsum hér áður fyrr.

Svo ákváðum við að keyra til Akureyrar og fara á Mývatn og svo áfram til Egilsstaða og suðurleiðina heim. Besta veðrinu var spáð þar þegar við lögðum af stað. Á Akureyri var ágætisveður og við héldum áfram ferð okkar til Mývatns og vorum að hugsa um að athuga með gistingu þar. En þegar þangað var komið var frekar leiðinlegt veður og við ákváðum því að keyra áfram til Egilsstaða. Frábært veður þegar þangað var komið, sól og blíða. Og nú var farið í að leita að gistingu. Við byrjuðum á Icelandair hótelinu og konan í afgreiðslunni þar horfði á okkur vorkunnaraugum og sagði: "Nei, því miður á ekkert herbergi og ég held að það sé meira og minna allt uppfullt á svæðinu". Djísus - við búin að keyra fleiri hundruð kílómetra og ekki einu sinni með svefnpoka, hvað þá tjald. Jæja, hún benti okkur á að fara í þjónustumiðstöð hjá Shell stöðinni og þar gætum við fengið upplýsingar um gistingu á öllu austurlandi. Við brunuðum þangað og þar tók önnur kona á móti okkur og horfði á okkur vorkunnaraugum: "Nei, held að það sé allt meira og minna upppantað á svæðinu. Möguleiki að þið getið fengið herbergi á Djúpavogi" Nú fóru nú að renna á okkur tvær grímur. En þá datt upp úr konunni að hún ætti einn lítinn kofa þarna sem væri laus. Við hin ánægðustu þangað til það kom í ljós að þetta var svefnpokapláss og við ekki með svefnpoka. Jæja, við ætluðum nú bara að fara að keyra áfram, þegar einhverra hluta vegna ég bað hana að hringja upp á Hótel Eddu sem er í Menntaskólanum á Egilsstöðum og athuga hvort þar væri herbergi að fá. Hún gerði það (þó hún léti fylgja með að hún teldi ekkert laust hjá þeim). En viti menn, þar var eitt herbergi laust og við komumst í hús.

Drifum okkur þangað og þreytt og ánægð ákváðum við að borða þar um kvöldið. Fengum sæmilegasta mat og gott rauðvín. Þegar reikningurinn var greiddur morguninn eftir hljóðaði hann upp á litlar 24 þúsund krónur. Dýrt drottinst orðið. En við erum búin að komast að því (veit ekki af hverju ég er alltaf svona hissa á þessu) að það er dýrt að vera í fríi - en svo sannarlega þess virði samt.

Meira af hringferðinni seinna.....

05 júlí, 2006

Les vacances fabuleuses à Paris

Þá erum við hjónin búin að spóka okkur í París. Yndisleg borg til að flakka um og njóta þess að vera til. Við fundum á netinu lítið sætt hótel í Latínuhverfinu skammt frá Notre Dame. Við byrjuðum á að tölta okkur þangað og skoða þessa frábæru kirkju með sína stórfenglegu steindu glugga. Hinum megin við Boulevard St-Michel, en það er gatan sem Hótel Observatoire Luxembourg stendur við, eru Luxemborgargarðurinn. Hann er stórfenglegur og þar sáum við útileikhús við eina höllina sem var að sýna Töfraflautuna eftir Mozart. Hefði sko alveg viljað sjá þá sýningu.

Veðrið lék við okkur alla vikuna, 30°C hiti fyrstu 3 dagana og fór svo í 21-23°C í tvo daga og dró þá aðeins fyrir sólu og svo hlýnaði aftur. Við keyptum okkur vikukort í Metro-lestarnar og flökkuðum vítt og breytt. Skelltum okkur til Versala og skoðuðum þar höllina og garðana. Svo fórum við í Louvre safnið og sáum Monu Lisu (pínulítil mynd) og fullt af öðrum frábærum listaverkum. Gengum síðan í gegnum litla sigurbogann og eftir garðinn endilöngum og út á Champs Elysees og sem leið lá upp á stóra sigurboganum.

Við skoðuðum einnig Pantheon, sem er grafhýsi sem hýsir mörg fyrirmenni eins og t.d. Voltaire, Victor Hugo, Marie og Peter Cuire o.fl. Einnig fórum við í nokkrar kirkjur til viðbótar. Við skoðuðum einnig Museum Natioal D'Historie Naturelle, en þar má sjá uppstoppuð dýr, allt frá minnstu pöddum upp í fíla, ísbirni og hvali. Flott sýning. Og auðvitað var farið upp í Eiffel turninn. Tiltölulega stuttar biðraðir og gekk fljótt fyrir sig að komast á toppinn. Við fórum í kvöldsiglingu niður Signu og borðuðum um borð í bátnum (rándýrt og ekki þess virði - hefðum betur bara farið í siglingu og sleppt matnum).

Á öllu þessu flakki var reglulega sest niður á kaffihús og dreypt á rauðvíni og bjór. Yndislegt með kaffihúsin, allir stólar úti snúa út að götunum, þannig að þú situr við hliðina á þeim sem þú ert með. Á þennan hátt geta allir virt fyrir sér manlífið.

Yndislegar litlar götur í nágrenni Notre Dame með fullt af matsölustöðum og gaman að koma þar að kvöldi til og tölta um og fá sér eitthvað að borða. En eitt verður þó að segja um París, hún er ef eitthvað er dýrari en Reykjavík. Einn bjór kostar til dæmis 800 krónur og rauðvínsglasið það sama. En ef maður fer út fyrir innstu hverfin, þá lækkar þetta niður í 350 krónur. Þeir kunna sko að mjólka ferðmanninn ekki síður en Kastró á Kúbu.

Bon au revoir!

More later....