Great mama

Skondin þessi tilvera....

28 ágúst, 2005

Hot flashes!

Fyrstu "gigg" Léttsveitarinnar á þessu hausti voru í gærkveldi. Sungum í tveimur fimmtugsafmælum, annað haldið úti í garði í Efstasundinu og hitt í Gyllta salnum á Hótel Borg.

Rosalega var gaman að hitta stelpurnar aftur og syngja. Og mesta furða hvernig þetta gekk miðað við að liðið sá um að hita sína rödd upp sjálfar. Það laust nú niður í kollinum á mér þegar við vorum að byrja að syngja hvort ég væri nú með það á hreinu hvað 1. alt ætti að syngja í þessum lögum og hvað ekki. En einhvern veginn þá rifjast þetta upp um leið og maður byrjar að syngja.

Það er alveg magnað að horfa út í sal þegar Jóhanna og Signý byrja að syngja. Karlpeningurinn alveg bráðnar, sama á hvaða aldri þeir eru. Svipurinn á þeim segir sko meira en mörg orð. Þær eru alveg frábærar og kunna sko sitt fag.

Í seinna afmælinu á Borginni fékk ég þetta líka litla hitakóf. Jamm.... það fylgir því sko að vera orðin gjaldgengur í eldrimannablokkir! Maður fær sko hitakóf í tíma og ótíma. Alveg óþolandi. En hvað um það, allt í einu lak af mér svitinn og mitt í þessu öllu saman þá opnaðist lásinn á hálsmeninu mínu (nú erum við allar með hálsmen - búið að breyta kjólunum í vafflaga hálsmál) og það datt niður á milli brjóstanna á mér. Og þarna stóð maður og lét ekki á neinu bera og hélt bara áfram að syngja. Skolli er hún Jóhanna búin að skóla mann vel til. "No matter what, just keep on singing!"

Oh hvað ég hlakka til að hefja kórstarfið aftur.

More later...

26 ágúst, 2005

Afi og tölvuleikirnir

Eldri barnabörnin mín eru farin að hafa mikinn áhuga á tölvuleikjum. Ekki furða afi keypti Playstation2 fyrir 2-3 árum fyrir þau til að hafa hérna heima. Svo er hann afi alveg á kafi í því að spila Call of Duty og Battlefield á tölvunni, svo að hann er sko alveg meiriháttar í augum Erics Más (9 ára) og Viktors Carls (6 ára). Drengirnir mínir spyrja líka alltaf hvort hann afi fari ekki að koma heim, þeir þurfi að ræða aðeins við hann um tölvuleikina.

Ef ég spyr hvort ég geti eitthvað hjálpað þeim í þessu, þá kemur bara pent; Nei, nei, amma mín - ég bara bíð eftir honum afa. Og ég sem vinn hjá fyrirtæki sem býr til forrit allan daginn. En svona er þetta bara - drengirnir mínir hafa sko miklu meiri tiltrú á honum afa í þessum málum.

Hanna Karen (6 ára) er ekki eins hrifin af þessum leikjum í Playstation2. Hún vill helst fá Palminn hennar ömmu lánaðan og fara þar í Mahjong (kínverskur kubbaleikur) og er sko klár í honum.

Nú er Emilía Ósk (alveg að verða 5 ára) alein í heimsókn hjá ömmu og afa og mín að prófa Shrek2 á Playstation2 og hún ætlar sko ekki að vera lengi að ná tökum á þessu tæki. Ég fór í að hjálpa henni að koma leiknum í gang. Sagði þá ekki sú stutta; Hvenær kemur afi?

Sem sagt niðurstaðan er sú að amma er fín til að knúsa og gefa manni eitthvað gott að borða, en hann afi er sko algjör tölvuleikjagúrú. Játa mig sigraða í þessu.

Reikna með að sama verði uppi á teningnum þegar þær yngstu, Guðrún Birna (3 ára) og Charlotta Ásta (alveg að verða 3 ára) taka til við tölvuleikina.

More later....

25 ágúst, 2005

Brrrr.... hvað það er kalt!

Nú er sumarfríið búið og það er eins og veðurguðirnir hafi ákveðið að sumarið væri líka búið og nú væri tími til kominn að veturinn hæfist. En hvað varð um haustið?

Mér finnst þetta nú einum of, ágúst er ekki liðinn og hitinn ekki nema +6°C í morgun og hávaðarok. Come on! Enga svona tilraunstarfsemi - við viljum ekki veturinn strax!

Heldur hefur mér reynst erfitt að vakna til vinnu þessa vikuna, enda orðin því vön að vaka langt fram á nætur og sofa svo frameftir. En þetta kemst upp í vana eins og alltaf. Og alltaf mæti ég kl. 08:00 - fyrst ég þarf að fara á fætur á annað borð.

Veröldin var nefnilega skipulögð af A-fólkinu (þeir sem sofna snemma og fara snemma á fætur) á meðan við B-fólkið sváfum (förum seint að sofa og vöknum seint). Ég er svona B-manneskja.

En ég játa mig bara sigraða í þessu og mæti fyrst af öllum í minni vinnu.

More later....

17 ágúst, 2005

50 ára og eldri

Ég rakst á auglýsingu um sölu á íbúðum í nýrri blokk fyrir 50 ára og eldri. Og allt í einu laust þeirri hugsun niður í kollinum á mér; Jeminn, þetta er fyrir fólk eins og mig! Ég er sem sagt löglega komin í þann hóp að geta keypt mér húsnæði í eldrimannblokk.

Ekki það að ég sé að fara að kaupa mér eina slíka íbúð, en ég er orðin gjaldgeng. Alla malla! Ég nefndi þetta við frumburðinn minn sem er nú komin á fertugsaldur (ha ha Helena - það verður sko ekki langt þangað til þú verður í sömu sporum og ég) og hún hreinlega grenjaði úr hlátri.

Ég sagði henni að ef ég myndi nú fara í það að kaupa mér svona íbúð núna þá gæti Bjarni ekki flutt með mér. Þessi elska er miklu yngri en ég. Hann yrði sko að búa einhvers staðar annars staðar næstu þrjú árin.

En að öllu gamni slepptu þá líður þessi tími á ógnarhraða og lífið er allt í einu svo örstutt. Það er því best að reyna að njóta þess út í ystu æsar.

Þar sem ég er enn í fríi - þá er best að skreppa í bæinn á kaffihús og kannski á safn eða eitthvað annað skemmtilegt.

More later....

05 ágúst, 2005

Jómfrúin og söfnin

Jæja nú er ég búin að vera í viku fríi og gert mestlítið. Sleikt sólina, haldið matarboð, "chillað" og drukkið gott vín.

Við hjónin ákváðum að láta ekki við slíkt sitja og skelltum okkur á Sjóminjasafnið á Granda. Þar mátti sjá margt fróðlegt um sjómennsku fyrri ára. Mest fannst mér um að skoða lúkarinn með 12 kojum í stafni skips og kolaofninn til að hlýja mannskapnum. Skil ekki hvernig þessir blessuðu menn fóru að því að kúldrast þarna saman í svona litlu plássi.

Síðan var farið á Jómfrúna og fengið sér gott að borða og einn öl. Næstum því eins og maður væri staddur í Köben.

Svo skelltum við okkur í Listasafn Íslands og þar var sýning á verkum Dieter Roth. Hmmmm.... ég er auðsjáanlega ekki nógu listfeng. Fannst þetta einfaldlega vera krass og svo ekki sé minnst á verkin sem eru gerð úr súkkulaði og glerskáparnir með kryddinu. Come on! ´

Það eru þarna endalausar bækur um þennan "frábæra" listamann á hinum ýmsu tungumálum. Sá ekki eitt einasta verk þarna sem ég gæti hugsað mér að eiga.

Hvað um það, ætla að fara á fleiri söfn á næstunni. Stefni á að koma mér loksins í Þjóðminjasafnið og berja það augum eftir breytingu og einnig ætla ég í Ásmundarsafnið. Hef ekki komið þangað í nokkra áratugi.

More later....