Great mama

Skondin þessi tilvera....

28 júlí, 2005

Alveg að komast í frí...

Nú er bara einn vinnudagur eftir og síðan algjör sæla í 3 vikur. Hef sjaldan verið eins langeyg eftir sumarfríinu mínu og núna. Er nú heldur ekki vön að fara svona seint í frí, þ.e. í ágúst. En þar sem við Bjarni tókum okkur frí í apríl og fórum til Moskvu, þótti okkur tilhlýðilegt að prófa að fara í frí seinnipart sumars.

Ekki síst þar sem hitabylgjan í fyrra kom í ágúst og við erum að vona að sagan endurtaki sig og hér verði bongóblíða og +20°C hiti og glampandi sól næstu þrjár vikurnar.

Annars hringdi nú frumburðurinn minn í mig (hún er búin að vera í vikufríi í sól og blíðu) og spurði mig pent hvort ég gæti ekki frestað fríinu mínu þangað til að hún væri farin að vinna. Hún vildi meina að það væri mér að kenna að það sólin væri horfin og spáð væri rigningu á næstunni.

Hún segir að ég sé konan sem reyndi hérna um árið að hengja út þvott í tíma og ótíma og þá snjóaði alltaf. Og hvort ég muni ekki eftir allri rigningunni sem hefur svo oft verið þegar ég er í fríi.
Hmmm...... mar getur orðið sár, þó það komi ekki tár!

En það er nokkuð sannleikskorn í þessu hjá henni Helenu, ég er löngu hætt að reyna að hengja út þvott - þurkka hann bara inni. Það allavega snjóar ekki þar.

En ég hlakka óumræðanlega til að gera eitthvað skemmtilegt næstu þrjár vikurnar. Lesa góðar bækur, hitta skemmtilegt fólk, grilla góðan mat, drekka gott vín og "chilla".

More later....

23 júlí, 2005

I don't know how she does it...

er heitið á frummálinu á bókinni sem ég er búin að vera að lesa í sól og tuttuguogeitthvað stiga hita úti á palli. Hún Stína samstarfskona mín lánaði mér bókina og hún heitir því óspennandi nafni á íslensku "Móðir í hjáverkum". Hvernig er hægt að vera móðir í hjáverkum? Ég bara spyr.

En hvað um það þetta er hin skemmtilegasta lesning og lýsir vel því hvernig nútímakonan lendir milli steins og sleggju þegar hún ætlar að láta hjónaband, barneignir, barnauppeldi, vinnu og frama á vinnumarkaði ganga upp.

Hér er lýst 35 ára gamalli konu sem vinnur í fjármálaheiminum, á 2 lítil börn og eiginmann sem aflar minni tekna en hún. Skolli skondið að fylgjast með hvernig hún reynir að láta öll þessi hlutverk ganga upp á aðeins 24 tímum á sólarhring og hún sem þyrfti svo sannarlega að hafa lágmark 36 tíma til ráðstöfunar á hverjum degi. Og mitt í allri þessari flækju eignast hún svo cyber-elskhuga í NYC sem hún daðrar við daglega í tölvupósti.

Ég sé svo margt þarna sem ég man eftir þegar ég var á þessum aldri með 3 börn (nema þetta með cyber-elskhugann) og mér verður enn meira hugsað til dætra minna sem eru nú að upplifa álíka hluti, enda hver þeirra með 2 börn og eiginmann. Veit að vísu ekki til að þær eigi cyber-elskhuga. Hmmm...... Kanna málið.

Og skondnast finnst mér í þessari bók þegar konan er að reyna að setja niður fyrir sér allt sem hún þarf að muna að gera. Svona voru nýársheitin hennar:

"Ná gullnu jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs svo tilveran verði betri og dásamlegri. Fara klukkutíma fyrr á fætur til að hámarka tímanýtingu. Vera meira með börnunum. Læra að slaka á innan um börnin. Ekki taka eiginmannin sem sjálfsagðan hlut. Gera eitthvað skemmtilegt - bjóða fóki í hádegismat á sunnudögum og svo framvegis. Afslappandi tómstundargaman?? Læra ítölsku. Nýta mér það sem London (Reykjavík) hefur upp á að bjóða - leikhúsin, listasöfn o.s.frv. Hætta við að hætta við að fara í stresslosandi nudd. Koma mér upp gjafaskúffu eins og almennileg skipulögð móðir. Reyna að passa í stærð10. Einkaþjálfari? Hringja í vini mína, vonandi muna þeir eftir mér. Ginseng, olísteiktur fiskur, ekkert hveiti. Kynlíf? Ný uppþvottavél. Autumn Bonfire kremið frá Helenu Rubenstein."

Skildu ekki margar konur finna þarna ýmislegt sem þær kannast við?

More later....

19 júlí, 2005

Stóra veröndin mín...

er algjört æði ! Hann Siggi tengdasonur sá um að leggja hellurnar á tæplega 40 fermetra veröndinni og Bjarni sá um að reisa skjólveggi.

Alveg meiriháttar að koma heim úr vinnunni í dag í 20°C hita og sól og geta sest út og lesið Blaðið. Og þar sem ég var svo heppin að eiga ískalda hvítvínsbelju í ísskápnum, þá fékk ég mér kalt hvítvín í glas og dreypti á því um leið og ég las yfir fréttir dagsins.

Algjör gúrkutíð og ekkert sérstakt í fréttunum. Mest skrifað og skrafað um vændi í Reykjavík (var með Reykjavík síðdegis í gangi í útvarpinu á meðan ég naut veðurblíðunnar). Ósköp held ég að það sé ömurleg tilvera að selja sjálfa sig. Og alveg finnst mér makalaust að heyra fólk segja að það finnist ekkert að þessu. Jafnvel finnst sumum ekkert að því að einhverjir dólgar hagnist á eymd þeirra kvenna og karla sem sjá sig knúin til að stunda þessa iðju.

Verð seint sátt við þetta held ég. Hvað sem hver segir um að það sé til fólk sem geri þetta með glöðu geði. Ye sure ! Viss um að yfirgnæfandi meirihluti vændiskvenna og karla gerir þetta ekki með glöðu geði.

Hvað um það - ætla aftur út í sólina. Er svo heppin að sólin kemur inn á veröndina um klukkan ellefu á morgnana og er þar þangað til hún sest á kvöldin.

Jibbý .... það er loksins komið sumar !

More later....

15 júlí, 2005

Surprise partý...

verður haldið fyrir Bryndísi vinkonu í dag. Ásta dóttir hennar skipulagði herlegheitin og sagði að ekki væri hægt að "gamla konan" (átti við mömmu sína sem varð 50 ára fyrir nokkrum dögum og var þá stödd í París) héldi enga veislu í tilefni þessara tímamóta.

Hlakka til að mæta í partýið - liðið verður á staðnum seinni partinn þegar þau skötuhjúin koma heim frá París. Óskaplega held ég að hún Binna mín verði hissa.

Nú þarf ég bara að spýta í lófann og skrifa smá ræðu fyrir hana. Ég hélt eina slíka í Köben fyrir Þórunni í janúar þegar hún varð fimmtug, svo Binna verður að fá sinn skammt líka.

Hef ekki enn haldið ræðu fyrir Gullu, sem varð fimmtug í júní, enda hefur hún ekki enn boðið til veislu hérna heima. Læt það bíða þangað til hún slær upp gilli.

Það er nú svo sem af nógu að taka þegar rifja á upp hvað á daga okkar vinkvennana hefur drifið. Við erum búnar að þekkjast í hátt á fimmta áratuginn og höfum brallað margt. Best að snúa sér að því að skrifa nokkur orð og hætta þessu pári hérna.

More later....

14 júlí, 2005

Frí árið 2007?

Hún Lotta er nú að leggja drög að því að við mæðgurnar fjórar ásamt mökum og börnum förum saman í frí í Janúar 2007 til Kanarí eða Flórída. Hún er í fríi og þá poppar mín upp á MSNinu og stingur upp á þessu.

Mér líst vel á þetta. Væri rosagaman að fara öll saman út, svo ekki sé talað um um miðjan vetur.

Það er ekki ráð nema í tíma sé tekið og vel framkvæmanlegt - nægur tími til stefnu.

Held við ættum að róa öllum árum að þessu. Og nú er "stjórnandinn" hún Lotta búin að setja mig í að finna hús til leigu á Florida á netinu. Hmmmm.... er hún ekki í fríi?

More later...

11 júlí, 2005

Stóra stelpan...

mín varð 32 ára í gær. Alveg ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Man það eins og það hefði gerst í gær þegar hún kom í heiminn. Var svo ótrúlega heppin að eiga hana heima hjá ömmu minni. Hún var ljósmóðir og ætlaði sér alltaf að taka á móti fyrsta barninu mínu og henni tókst það. Frábær upplifun og svo var hún Helena alveg einstaklega rólegt og gott barn.

Flott stelpa og ekki eru systur hennar síðri. Rosastolt mamma.

Svo eigum við Bjarni 7 ára brúðkaupsafmæli í dag. Við gerum eitthvað í tilefni dagsins í kvöld.

More later....

06 júlí, 2005

Fölu buffin hennar Gullu

Við gömlu vinkonurnar fjórar hittumst hjá Bryndísi í morgunkaffi á síðasta sunnudag. Þar var margt skrafað og hlegið að vanda.

Gulla er alveg frábær sögumanneskja og henni tekst alltaf að krydda tilveruna þannig að allir velta um af hlátri. Hún rifjaði upp þegar hún ætlaði að fara að grilla "hvítu" buffin hérum árið og þurfti að skipta um kút á gasgrillinu. Ekki tókst betur til heldur en að gasið lak út úr kútnum og það kviknaði í honum. Gulla dó ekki ráðalaus - heldur druslaði logandi grillinu út á gras - sagðist hafa verið alveg viss um að það myndi kvikna í húsinu þar sem það stóð á pallinum upp við húsið.

Önnur hver heimasætan hringdi á slökkviliðið og svo þegar Gulla heyrði sírenuvælið nálgast, þá fór mín allt í einu að pæla í hverju hún væri (ótrúlegt hvað konur hugsa og gera á ögurstundu). Hún hafði verið að laga til í skápunum um morgunin og tekið þar úr umferð einhverja forláta úlpu sem var víst ekkert augnayndi. Mitt í öllum hamagangnum með logandi grillið, gráleitu buffin sem biðu þess að komast á grindina og vælandi sírenur, þá skellti mín sér í þessa líka forljótu úlpu.

Þetta var nú ekki allt - heldur allt í einu kemur lögregluþjónn í fullum skrúða fljúgandi í gegnum trén með slökkvitæki (hann var fyrstur á vettvang) og mætti þar húsmóðurinni í úlpugarminum með hvítu buffin og logandi gaskút undir grillinu.

Gulla sagði að allir nágrannarnir hefðu legið á limgerðinu að fylgjast með ósköpunum og þegar búið var að slökkva eldinn, þá rigndi yfir hana spurningum um hvað hún ætlaði eiginlega að fara að grilla. Ekki nema furða kjötið leit út eins og gráleitar klessur.

Hvað um það, ég fékk uppskriftina hjá Gullu af þessum fölu buffum og grillaði þau áðan og get með sanni sagt. Þetta er æðislega gott!

Hér kemur uppskriftin:
500 gr gott nautahakk
1 pk púrrulaukssúpa
hálf dós af sýrðum rjóma

Sulla þessu öllu saman og búa til buff (passa að hliðarnar séu þéttar og jafnar svo allt detti ekki í sundur á grillinu) og grilla síðan. Passa að grilla í gegn. Þetta er ótrúlega bragðmikið og gott. Ekki krydda með neinu öðru. Berist fram með því sem þú vilt. Bon apetit !

Alveg viss um að þetta gengur jafnvel ofan í börn og fullorðna.

More later....

05 júlí, 2005

Höfuðverkurinn...

að drepa mig og með samviskubit þar sem mér tókst ekki að koma mér fram úr rúminu í morgun um sexleitið. Slökkti bara á klukkunni og vaknaði ekki fyrr en upp úr sjö. Þá var lítið annað að gera en koma sér í vinnuna.

En án gríns, þá er ég að fá mígreni núna og vona að töflurnar sem ég tók áðan fari að virka.

Skolli verður allt dapurt þegar hausinn er að klofna. Verð örugglega hressari á morgun.

More later...

04 júlí, 2005

200 ára flakkarar

Við gömlu vinkonurnar fjórar náum að fylla 200 árin samanlagt þetta árið. Til að halda upp á þessi tímamót höfum við farið á ýmsa staði.

Þórunn reið á vaðið í janúar. Hún býr í Köben og bauð þar til veislu og við hinar þrjár mættum í æðislega veislu og héldum upp á að hún var búin að ná því að fylla fimmta áratuginn.

Ég kom næst í apríl og við Bjarni skelltum okkur til Moskvu til Hrafnhildar og Konna og héldum upp á tímamótin mín þar. Meiriháttar gaman og framandi að vera í Rússlandi.

Gulla skellti sér svo til Mallorca og hélt upp á sín tímamót þar með stæl. Haukur maðurinn hennar er fararstjóri þar og nokkrir sáu sér fært um að mæta þar til að samgleðjast henni.

Bryndís er sú síðasta okkar sem nær þeim áfanga að verða 50 ára og það gerist eftir nokkra daga núna í júlí. Hún og Teddi ætla að fara til Parísar og halda upp á það þar. Verður örugglega rosalega gaman.

Það eina sem vantar er að við fjórar sláum upp Roof Tops balli og höldum sameiginlega upp á 200 ára afmælið.

Aldrei skal maður segja aldrei - hver veit nema við látum verða að því. Afmælisárið mikla er nú ekki liðið ennþá.

More later...

02 júlí, 2005

Ein þreytt...

eftir gleði gærkvöldsins. Þetta var rosastuð. Grilluðum góðan mat og drukkum gott vín. Fórum svo í nokkra keppnisleiki og enduðum á Twister. Jeminn, hef sko aldrei fari í þann leik áður - en meiriháttar skondið að sjá fólk reyna að koma öllum sínum útlimum á gula, rauða, græna og bláa punkta á plastteppi. Sem sagt þvælist hvert fyrir öðru, þangað til mannaskapurinn dettur niður því reynt er að snúa upp á skrokkin á ómögulegan hátt.

Síðan var farið á Players. Labbaði þangað með liðinu á fínu penu rauðu skónum mínum og það stórsér á þeim. Verð að fara með þá til skóara eftir þessa svaðilför. Þar spilaði ég Pool í fyrsta sinn og hafði gaman af. Síðan var dansað og sungið með Í svörtum fötum. Bara skolli skemmtilegir og spila meira segja lög sem ég þekki.

Kjartan herramaður fylgdi síðan "mömmunni" út í leigubíl um kl. 02:00 og svo fór hann inn að skemmta sér áfram með liðinu. "Mamman" var búin að fá nóg og fór heim að sofa. Segið svo að herramennskan sé útdauð. Vona að honum gangi vel í nýju vinnunni hjá Össur.

Nú ætla ég að liggja í leti í dag og lesa góða bók. Ekkert betra að gera þegar maður er búinn að vera að djamma og djúsa.

More later....

01 júlí, 2005

Föstudagur...

og ég að undirbúa kveðjupartý hér í vinnunni. Hann Kjartan hætti í gær og til stendur að grilla góðan mat og stunda smá glasalyftingar honum til heiðurs í kvöld. Frábær strákur og það hefur verið meiriháttar að vinna með honum undanfarin 5 1/2 ár.

Svo á víst að taka stefnuna á Players, Kjartan segir að þar verði Í svörtum fötum að spila. Aldrei að vita nema "mamman " á svæðinu fari með krökkunum þangað. Maður er gjörsamlega hættur að stunda svona staði - sýnir nú hvað ég er orðin ráðsett kona. Hmmmmm...

Hanna Karen skildi ekkert í því í morgun þegar hún vaknaði hjá ömmu og afa að Duran Duran væri í sjónvarpinu. Hún hélt að mamma sín og pabbi væru ennþá á þessum tónleikum, sem þau fóru á í gærkveldi. Held að þeirri stuttu hafi þótt nóg komið. Tók smátíma að útskýra fyrir prinsessunni að þetta vera upptaka og tónleikarnir væru búnir og mamma og pabbi hefðu farið heim að sofa í gærkveldi.

Sem sagt stuð í kvöld. More later.....