Great mama

Skondin þessi tilvera....

10 janúar, 2007

Dúndrandi hjartsláttur á nýju ári

Nýtt ár er byrjað og það hófst með látum hjá mér. Glaðvaknaði skyndilega kl. 05:45 á síðasta fimmtudagsmorgun og hjartað í mér hamaðist eins og múkki. Fyrsta hugsunin var: Hvað var mér að dreyma svona skelfilegt?

Konan fór fram úr og hjartað hélt áfram að hamast og hamast - hreinlega heyrði það slá. Og eftir 15 mínútur eða svo var hjartað á mér enn á sama hraðanum og mér var hætt að lítast á blikuna. Þegar hér var komið við sögu, þá var ég farin á fá seiðing upp í háls og þá vakti ég minn ektakarl og sagði honum að ég væri ekki alveg eðlileg (og þessi elska horfði á mig og svipurinn sagði: eins og þú hafir einhvertímann verið það?)og lét hann vita að hjartað í mér hamaðist og það væri búið að gera það í dágóðan tíma og virtist ekkert ætla að hægja á sér.

Jæja, við hringdum á læknavaktina og ég lýsti þessum ósköpum fyrir þeim og þeir sögðu okkur að hringja strax á sjúkrabíl. Nú fóru að renna á mig tvær grímur! Og í gegnum huga minn ruku ótrúlegar hugsanir. Og satt að segja trúði ég ekki að þetta væri að gerast.

Við hringdum á sjúkrabíl og þeir komu í hvelli. Ég var tengd við hjartalínurit og þá kom í ljós að púlsinn var í 210 slögum, sem er rugl! og var þar stöðugt. Nú kallaði sjúkraflutningamaðurinn á hjartabílinn og nú lá við að ég væri farin að hugsa um hvernig kistu ég yrði lögð í.

Hjartabíllinn mætti á svæðið og í mig var dælt einhverjum lyfjum til að endurræsa hjartað (læknirinn lýsti þessu þannig)- það var stöðvað í nokkrar sekúndur og svo startaði það sér aftur. Sem sagt maður er eins og Windows kerfi sem sífellt þarf að vera að endurræsa.
´
Það hafðist í annarri tilraun að koma mér í eðlilegan púls og hann hélst síðan í 88-92 slögum. Ég var síðan flutt á bráðamóttökuna með sjúkrabíl (mín fyrsta og eina ferð í slíku farartæki um ævina). Þar var maður rannsakaður í bak og fyrir og teknar blóðprufur og ég sett í þolpróf. Kom út úr þessu öllu með glans.

Mér skilst að þetta sé ekkert óvanalegt (hu???)og hér hafi rafboðin í hjartanu eitthvað farið á skjön og ég því komist í algjört "overdrive".

Allavega ég komin í lag hvað þetta varðar.

Lenti síðan í árekstri í fyrradag og satt að segja gat mér ekki verið meira sama. Eftir þetta skipta dauðir hlutir svo ósköp litlu máli.

Lifum lífinu lifandi á meðan við getum.

More later....