Great mama

Skondin þessi tilvera....

26 ágúst, 2005

Afi og tölvuleikirnir

Eldri barnabörnin mín eru farin að hafa mikinn áhuga á tölvuleikjum. Ekki furða afi keypti Playstation2 fyrir 2-3 árum fyrir þau til að hafa hérna heima. Svo er hann afi alveg á kafi í því að spila Call of Duty og Battlefield á tölvunni, svo að hann er sko alveg meiriháttar í augum Erics Más (9 ára) og Viktors Carls (6 ára). Drengirnir mínir spyrja líka alltaf hvort hann afi fari ekki að koma heim, þeir þurfi að ræða aðeins við hann um tölvuleikina.

Ef ég spyr hvort ég geti eitthvað hjálpað þeim í þessu, þá kemur bara pent; Nei, nei, amma mín - ég bara bíð eftir honum afa. Og ég sem vinn hjá fyrirtæki sem býr til forrit allan daginn. En svona er þetta bara - drengirnir mínir hafa sko miklu meiri tiltrú á honum afa í þessum málum.

Hanna Karen (6 ára) er ekki eins hrifin af þessum leikjum í Playstation2. Hún vill helst fá Palminn hennar ömmu lánaðan og fara þar í Mahjong (kínverskur kubbaleikur) og er sko klár í honum.

Nú er Emilía Ósk (alveg að verða 5 ára) alein í heimsókn hjá ömmu og afa og mín að prófa Shrek2 á Playstation2 og hún ætlar sko ekki að vera lengi að ná tökum á þessu tæki. Ég fór í að hjálpa henni að koma leiknum í gang. Sagði þá ekki sú stutta; Hvenær kemur afi?

Sem sagt niðurstaðan er sú að amma er fín til að knúsa og gefa manni eitthvað gott að borða, en hann afi er sko algjör tölvuleikjagúrú. Játa mig sigraða í þessu.

Reikna með að sama verði uppi á teningnum þegar þær yngstu, Guðrún Birna (3 ára) og Charlotta Ásta (alveg að verða 3 ára) taka til við tölvuleikina.

More later....

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home