Great mama

Skondin þessi tilvera....

01 október, 2005

Kvenleggurinn

Alltaf er nóg um að vera í kvenleggnum í fjölskyldunni og tengdafjölskyldunni. Konur virðast yfirleitt vera uppteknar af því að sinna öllum í kringum sig.

Sigga mágkona er ein af þessum samviskusömu konum sem hugsar helst um alla aðra á undan sér. Svo vildi til að bílinn hennar gaf upp öndina og komst hún þá ekki til að fara með aldraða móður sína í búð. Þetta hlutverk hefur hún samviskusamlega séð um og hin systkynin þrjú meira og minna vera stikkfrí. Hvað um það þá hljóp ég í skarðið og sótti hana tengdamóður mína í gær eftir vinnu og við skelltum okkur í búðarferð og síðan sátum við áttum skemmtilegt samtal um lífið eins og það var í byrjun síðustu aldar.

Nú ætla ég að fara að ná í móður mína og skella mér á flakk með henni. Við endum svo á því að fara á kaffihús og fá okkur eitthvað gott. Hún er búin að vera á fullu að huga að öllum sínum fimm börnum sem búsett eru í vesturbænum í Reykjavík, í Kópavogi, í Færeyjum, í Þýskalandi og í Varmahlíð í Skagafirði. Svo hugar hún að öllum sínum 10 barnabörnum og 8 barnabarnabörnum. Það er séð til þess að ekki eitt einast afmæli gleymist og fylgst með hvernig allur ættleggurinn hefur það frá degi til dags.

Dæturnar allar á kafi í famkvæmdum og vinnu og sinna börnum. Ein af dætradætrum mínum, hún Emilía Ósk er búin að biðja um það alla vikuna að koma í heimsókn til ömmu. Lotta skildi ekkert í þessum rosalega áhuga hjá barninu -talaði um þetta á hverjum degi. En ég veit sko alveg af hverju hún þarf að koma í heimsókn til ömmu - hún var að fá nýja eyrnalokka - svona hringi úr GULLI - eins og hún sagði mér í símanum. Hún þarf sko að koma og sýna mér þá. Og amma er búin að vera svo upptekin alla vikuna að blessað barnið hefur ekki getað komið í heimsókn. Sé hana vonandi á morgun.

Önnur dótturdóttur mín, hún Hanna Karen kom í heimsókn í smátíma eftir vinnu á þriðjudaginn og borðaði með okkur afa. Henni var svo skilað heim um hálfátta þar sem amma hin upptekna var að fara á kóræfingu.

Maður sver sig svo sem í ætt við allar þessar konur, maður hugsar til mömmu, tengdamömmu, dætra og barnabarna og finnst maður stundum hafa allt of lítinn tíma til að sinna þessu öllu.

En maður gerir sitt besta og ósköp er maður ríkur af því að eiga allt þetta fólk að.

More later...

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home