Great mama

Skondin þessi tilvera....

18 október, 2005

"Kórinn" og kórinn!

Það fór aldrei svo að maður fjárfesti ekki í galaklæðnaði. Rauk í Hjá Hrafnhildi á mánudaginn fyrir viku og mátaði þar að minnsta kosti 10 dress og kjóla. Og endaði svo á að kaupa þann sem ég neitaði lengi vel að máta. Má þakka fyrir hvað afgreiðslukonan var ákveðin að koma mér í kjólinn og jakkann. Kjóll og jakki úr 100% silki, sægrænt að lit og ferlega flott.

Mætti í herlegheitunum á frumsýninguna á myndinni "Kórinn" í Háskólabíó. Megum sko vera stoltar af þessari mynd um kórinn okkar. Hún skilar sko alveg þessum skemmtilega húmor og frábæru samstöðu sem er í Léttsveitinni. Þarf að sjá myndina aftur - maður hreinlega náði ekki öllu á einni sýningu. Og ekki skemmdi dómurinn í Mogganum fyrir - myndin fékk 4 stjörnu **** af 5 mögulegum.

Síðan var farið í boð hjá borgarstjóra og skálað þar fyrir frábærri mynd. Gaman að mæta svona uppáklæddar og gera þennan dag sérstakan.

Svo var farið í æfingabúðir að Skógum um helgina. Þetta var eins og að vera í "boot camp". Liðið keyrt áfram í söng og gleði. Rosalegt að syngja heilu dagana, en ég vildi sko ekki missa af þessu. Ótrúlegt hvað það er gott fyrir sálina að vera í þessum kór. Var satt að segja eins og undin tuska í gær þegar ég mætti í vinnuna. Þreytt en sæl.

Og nú er kóræfing í kvöld - jibbý - svo við höldum áfram að syngja. Enda stendur til að syngja á Ingólfstorgi á kvennafrídaginn 24. okt. og síðan á Hótel Borg sama dag.

Nóg að gera í bransanum. Nú er bara að leggjast í að læra texta og nótur og þenja síðan raddböndin.

More later....

09 október, 2005

Ég, um mig, frá mér, til mín.

Ég hét sjálfri mér því að þessi helgi yrði notuð í að hugsa um sjálfa mig fyrst og fremst. Vera bara heima og dúlla mér. Alveg kominn tími á það og stundum svo ósköp gott að vera alein heima.

Ég fór og náði mér í garn á föstudaginn og byrjaði að prjóna mér stórt sjal. Allt í einu fannst mér þetta eitthvað svo notaleg tilhugsun að sitja bara heima í kyrrðinni og prjóna. Ekki slæmt skal ég segja ykkur. Svo bjó ég til góða Innstakots-pottréttinn fyrir okkur Bjarna. Sá pottréttur varð til einu sinni austur í Innstakoti þegar ekki var hundi út sigandi og því ekki hægt að setja svínahnakkann á grillið. Skar þá bara kjötið í bita og steikti á pönnu og sauð svo í smávatni þangað til að það var orðið meirt. Steikti síðan sveppi og paprikur og skellti því svo út í og hellti síðan rjóma yfir. Þykkti með maizenamjöli og setti slettu af sósulit. Vola... algjört nammi. Sjóða hrísgrjón með og búa til salat. Þetta beið eftir mínum karli þegar hann kom heim eftir 12 stunda vinnudag á föstudaginn og svo fengum við okkur gott rauðvín með.

Í gær var ég í algjöru afslappelsi - prjónaði og horfði á sjónvarpið og skellti í svona 2 þvottavélar. Algjör leti.

Nú er kominn sunnudagur og nú verð ég aðeins að spýta í lófana. Nú þarf ég að lesa smásögu á þýsku fyrir þýskutímann minn á miðvikudagskvöldið. Og betra væri nú að ég skyldi það sem ég er að lesa :-( Notast nú við góða ensk-þýska-enska orðabók á netinu svo þetta hefst sjálfsagt.

Svo þarf maður að pæla í hverju maður á að vera á þriðjudagskvöldið á frumsýningunni á Kórnum og boðinu hjá borgarstjóra á eftir. Þessar elskur í kórnum ætla að vera í galaklæðnaði. Satt að segja á ég engan andsk... galaklæðnað. Verð víst að fara í einhverju árshátíðardressi sem hefur verið notað ansi oft.

Svei mér þá, það endar með því að einhvertíma fjárfestir maður í galadressi - þeim er alltaf að fjölga þeim tækifærum sem maður þarf á því að halda - sérstaklega í Léttsveitinni.

More later...

04 október, 2005

Hver er þessi kona?...

hugsaði ég í morgun þegar ég leit í spegilinn. Almáttugur - í einhverri miðaldarkrísu lét ég Inger lita á mér hárið dökkbrúnt í gærkveldi.

Ég sem hef verið ljóska allt mitt líf! Hún að vísu lofaði mér að það væri hægt að lita mig ljóshærða aftur án vandræða.

Bjarna fannst nú svolítið skondið að sofa hjá dökkhærði konu. Ég ætti kannski að fá hann til að lita sig ljóshærðan. Hmmmm.....

More later....

01 október, 2005

Kvenleggurinn

Alltaf er nóg um að vera í kvenleggnum í fjölskyldunni og tengdafjölskyldunni. Konur virðast yfirleitt vera uppteknar af því að sinna öllum í kringum sig.

Sigga mágkona er ein af þessum samviskusömu konum sem hugsar helst um alla aðra á undan sér. Svo vildi til að bílinn hennar gaf upp öndina og komst hún þá ekki til að fara með aldraða móður sína í búð. Þetta hlutverk hefur hún samviskusamlega séð um og hin systkynin þrjú meira og minna vera stikkfrí. Hvað um það þá hljóp ég í skarðið og sótti hana tengdamóður mína í gær eftir vinnu og við skelltum okkur í búðarferð og síðan sátum við áttum skemmtilegt samtal um lífið eins og það var í byrjun síðustu aldar.

Nú ætla ég að fara að ná í móður mína og skella mér á flakk með henni. Við endum svo á því að fara á kaffihús og fá okkur eitthvað gott. Hún er búin að vera á fullu að huga að öllum sínum fimm börnum sem búsett eru í vesturbænum í Reykjavík, í Kópavogi, í Færeyjum, í Þýskalandi og í Varmahlíð í Skagafirði. Svo hugar hún að öllum sínum 10 barnabörnum og 8 barnabarnabörnum. Það er séð til þess að ekki eitt einast afmæli gleymist og fylgst með hvernig allur ættleggurinn hefur það frá degi til dags.

Dæturnar allar á kafi í famkvæmdum og vinnu og sinna börnum. Ein af dætradætrum mínum, hún Emilía Ósk er búin að biðja um það alla vikuna að koma í heimsókn til ömmu. Lotta skildi ekkert í þessum rosalega áhuga hjá barninu -talaði um þetta á hverjum degi. En ég veit sko alveg af hverju hún þarf að koma í heimsókn til ömmu - hún var að fá nýja eyrnalokka - svona hringi úr GULLI - eins og hún sagði mér í símanum. Hún þarf sko að koma og sýna mér þá. Og amma er búin að vera svo upptekin alla vikuna að blessað barnið hefur ekki getað komið í heimsókn. Sé hana vonandi á morgun.

Önnur dótturdóttur mín, hún Hanna Karen kom í heimsókn í smátíma eftir vinnu á þriðjudaginn og borðaði með okkur afa. Henni var svo skilað heim um hálfátta þar sem amma hin upptekna var að fara á kóræfingu.

Maður sver sig svo sem í ætt við allar þessar konur, maður hugsar til mömmu, tengdamömmu, dætra og barnabarna og finnst maður stundum hafa allt of lítinn tíma til að sinna þessu öllu.

En maður gerir sitt besta og ósköp er maður ríkur af því að eiga allt þetta fólk að.

More later...