Great mama

Skondin þessi tilvera....

24 september, 2005

Afmæli, afmæli!

Þetta er rosalegur afmælismánuður. Hann hófst 3. september þegar ömmustelpan mín hún Emilía Ósk varð 5 ára. Síðan varð yngsta dóttir mín hún Inger Anna Lena 28 ára 18. septmeber.

Svo átti Léttsveitin 10 ára afmæli í mánuðinum og tilefni af því var haldin stórskemmtileg sögusýning. Rosagaman að skoða öll gömlu plakötin, söngskrárnar og myndaalbúmin. Svo á Léttsveitin 5 ára sjálfstæðisafmæli á næstu dögum.

Ekki má gleyma fommanum í kórnum. Hún Þórkatla var 50 ára á fimmtudaginn og mættum við rúmlega 30 kellur úr kórnum og sungum fyrir hana kl. 7 að morgni og svo var farið á Kaffivagninn út á Granda.

Svo varð ömmustelpan mín hún Charlotta Ásta 3 ára í gær. Það verður haldið upp á afmælið hennar núna á eftir. Við Viktor Carl bróðir hennar, sem gisti hér í nótt, mætum galvösk í það á eftir.

Síðan er hún Sigga mágkona 50 ára í dag og Pétur svili varð 50 ára fyrir nokkrum dögum. Þau hjónin bjóða til kvöldverðar í kvöld. Verður örugglega rosagaman.

Annars er þetta búið að vera mikið afmælisár - fullt af fimmtugsafmælum, þar á meðal mitt eigið og pabbi varð 75 ára í júní.

Fullt af tilefnum til að gera sér dagamun.

More later...

21 september, 2005

Tungumál

Það eru búnir að vera rosalega annasamir dagar hjá mér í vinnunni þessa vikuna. Búin að vera á fullu að skrifa handbók á ensku og síðan að uppfæra hana með hollenskum myndum og vísa í hollensk orð.

Svo er ég að basla við að læra þýsku og á að mæta þar eftir hálftíma. Djísus.... öll þessi mál (og danska í bland - erum með viðskiptavini þar líka) eru komin í einn hrærigraut í mínum gamla haus.

Maður flippar á milli þessara mála og notar svo móðurmálið þess á milli og nú er ég alveg viss um að ég get ekki sagt stakt orð á þýsku á eftir. Og á þessu námskeiði sem ég er á núna leyfist mér ekki að tala neitt nema þýsku!

Well, man skal reyna að sprache Deutsch.

Púffff....eins og heilinn hafi lent í "blendernum".

More later....

20 september, 2005

Allt að gerast...

Við hjónin tókum skyndlilega þá ákvörðun á föstudagskvöldið að nú væri nóg komið í því að lappa upp á gamla Cherokee-inn okkar. Enda er jeppinn orðinn 15 ára. Ákváðum að nú væri komið að því að jarða hann og kaupa sér nýjan bíl.

Við skelltum okkur í Ingvar Helgason daginn eftir og skoðuðum nokkra notaða bíla. Vorum ekki lengi að fá augastað á 2ja ára gömlum Opel Astra station bíl, sem vildi svo skemmtilega til að ber númerið RP-707 (gamla Micran mín er með XF-707). Við skelltum okkur í að prufukeyra hann og þarf ekki að orðlengja það meir, keyptum gripinn. Flottur bíll og alveg eins og nýr.

Nú er kórstarfið hafið aftur og í kvöld er 10 ára afmælissýning kórsins. Verður gaman að skoða hana og syngja síðan með stelpunum. Ótrúlegt hvað maður fær mikið út úr þessu starfi.

Svo er stefnt á að kórinn fari til Kúbu í vor. Fíla það í botn. Verður pottþétt meiriháttar ferð. Er að hugsa um að taka karlinn með, þó ég hafi hingað til talið að þessar elskur ættu nú ekkert sérstakt erindi með í kórferðirnar. Maður hefur hvort sem er takmarkaðan tíma til að sinna þeim.

Komst þó að því á Ítalíu í fyrra að þeir karlar sem komu með undu hag sínum vel og voru rosalega duglegir að prómótera kórinn hvar sem við vorum.

More later....

15 september, 2005

Varsjá

Jæja, þá erum við hjónin búin að spóka okkur í Varsjá í 30-33°C hita og sól. Borgin kom okkur skemmtilega á óvart. Þarna er ótrúlega margt skemmtilegt að sjá. Engin mengun og borgin hrein.

Árshátíðin hjá TM Software var haldin á 5 stjörnu hóteli og hófst með myndbandi. Þar kom forstjórinn fyrstur fram og tilkynnti okkur að vegna mikillar aukningar á launakostnaði í fyrirtækinu, þá hefði verið gripið á það ráð að bjóða öllum starfsmönnum til Póllands og nú væri verið að vinna í því að selja eignir okkar og bíla og börnin yrðu flutt til Póllands fljótlega. Þetta myndi spara heilan helling - launakostnaðurinn myndi lækka um heilann helling.

Næst á eftir forstjóranum tóku við upptökur á hinum ýmsu áskorunum sem fram fóru á milli deilda. Mesta lukku vakti áskorun Skyggnis á mína deild, Theriak. Tveir af samstarfsmönnum mínum klæddust í bikini, annað neongrænt og hitt skærbleikt, og hlupu síðan í múnderingunni í kringum "Hjartarhúsið" Holtasmára 1. Ósköpin voru tekin upp á myndband og frést hefur að blessað gamla fólkið sem var á leiðinni í Hjartarvernd hafi fengið vægt hjartaáfall við að sjá þessar elskur í þessari múnderingu. Ekki furða annar er sérstaklega loðinn og leit vægast sagt undarlega út í neongrænu bikini og hinn er svo mjór að hann gæti fallið niður um bil á niðurfalli (að hans eigin sögn) og hann átti í vandræðum með að halda gersemunum í bikinibuxunum sem voru allt of stórar á hann.

Og ekki nóg með það, heldur stóðum við vinnufélagarnir upp á svölum á 6. hæðinni og einn af okkur tók sig til og setti vatn í fötu og skvetti því svo niður um leið og þessar elskur hlupu framhjá. Við erum enn að undrast að honum tókst að hitta þann mjóa, en ekki hinn sem er þó aðeins meiri um sig. Sá granni hefur sem sagt komist að því hvernig það er þegar það rignir á köflum.

Þetta atriði verður lengi í minnum haft.

More later....

04 september, 2005

Ljúf og góð helgi

Ósköp er þetta búin að vera notaleg helgi. Grilluðum humar á föstudag og fengum okkur gott hvítvín með. Mmmmmm..... gerist ekki betra.

Svo var farið í 5 ára afmæli hjá Emilíu Ósk á laugardaginn kl. 12:00 og þar var boðið upp á kínverskan kjúklingarétt, heitt skinkubrau og fleira fínerí. Og prinsessan mín er orðin svo stór og getur ekki beðið eftir að komast í skóla á næsta ári. En sem sárabót segir hún ömmu að það sé rosagaman að vera í elsta hópnum á leikskólanum.

Við Bjarni fórum síðan í langan göngutúr hér í Kópavoginum og skelltum okkur svo yfir í Seljahverfið og kíktum á framkvæmdirnar hjá Helenu Sif og Sigga. Eldhúsið orðið fokhelt og búið að rífa niður eins og einn vegg. Þau eru byrjuð að flísaleggja og svo á setja upp splunkunýtt eldhús. Verður örugglega rosaflott.

Næst er að skoða baðherbergið hjá Inger Önnu Lenu og Níels sem þau voru að endurnýja og mér skilst að sé alveg að verða tilbúið. Hlakka til að sjá það.

Annars er næst á dagskrá að undirbúa ferð til Varsjár á næsta fimmtudag með vinnunni. Búin að strauja og pressa af okkur hjónunum sem við þurfum að hafa með okkur. Verður örugglega meiriháttar ferð. TM Software býður öllu sínu starfsfólki í þessa ferð og er það meiriháttar. Þarna á að halda árshátið, að vísu í tvennu lagi því við erum svo mörg í þessu fyrirtæki að það verða teknar tvær helgar í þetta. Í fyrri ferðinni fara allavega 150 manns og í þeirri seinni 185.

Hlakka til - veðurspáin er sól og 28-30°C hiti! Jibbý - sem sagt sumar!

More later....